Innlent

Egill Þór glímir við eitil­frumu­krabba­mein

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Egill Þór greindi frá því í dag að hann hafi greinst með eitilfrumukrabbamein. 
Egill Þór greindi frá því í dag að hann hafi greinst með eitilfrumukrabbamein.  Aðsend

Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur greinst með eitilfrumukrabbamein. Hann greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og segist hafa byrjað í meðferð við meininu í dag.

„Síðustu dagar hafa verið viðburðarríkir svo vægt sé til orða tekið. Eftir mikinn slappleika og veikindi á þessu ári og fjölda læknisheimsókna þá endaði ég á bráðamóttöku Landspítalans í frekari skoðun,“ skrifar Egill í færslunni sem hann birti síðdegis í dag.

Eftir fjölda rannsókna segist hann hafa greinst með eitilfrumukrabbamein. Hann segir góðu fréttirnar þær að til sé lækning við þeim sjúkdómi og hóf hann meðferð formlega í dag.

„Næstu vikur og mánuðir verða því alfarið undirlagðir þessu nýja verkefni, að sigra þennan óboðna gest. Vissulega geri ég ráð fyrir því að lyfjameðferðirnar muni taka á, með tilheyrandi sveiflum, andlega og líkamlega.“

Hann segist þó fullur bjartsýni og að hann hlakki til að komast aftur út í lífið á nýjan leik sem allra fyrst. Hann hafi ekki aðeins vondar fréttir að fær heldur líka góðar.

„Það bíður okkar annað spennandi verkefni í lok árs þegar fjölskyldan stækkar en við Inga María eigum von á öðru barni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×