Lífið

„Það er enginn sigurvegari í þessu kapphlaupi“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. UNICEF

Nýtt fjáröflunarátak UNICEF á Íslandi hófst í dag –Allir eiga sama rétt á bólusetningum – Enginn er öruggur fyrr en allir eru það.

Í nýju fjáröflunarátaki kallar UNICEF á Íslandi eftir stuðningi almennings, fyrirtækja og stjórnvalda til að tryggja jafna dreifingu bóluefna gegn kórónaveirunni meðal efnaminni ríkja heimsins. Yfirskrift átaksins er Komum því til skila og þar bendir UNICEF á að það sé ekki einungis siðferðislega rétt heldur einnig hagur allrar heimsbyggðarinnar að tryggja að öll ríki heimsins fái bóluefni fyrir íbúa sína hratt og örugglega. Það er skilvirkasta leiðin til að sigrast á faraldrinum og koma lífi okkar og efnahag aftur í rétt horf.

Hægt er að styðja átakið með því að senda SMS-ið COVID í númerið 1900 og tryggja þar með dreifingu bóluefnis fyrir þrjá einstaklinga.

Mikil þörf á samstöðu

„Það er enginn sigurvegari í þessu kapphlaupi, við þurfum öll að standa saman til þess að hægt sé að útrýma veirunni fyrir fullt og allt. Við erum á góðum stað hér á Íslandi og bólusetningar ganga vel en því miður er staðan ekki sú sama í efnaminni ríkjum heimsins. Stjórnlaus útbreiðsla COVID-19 í Suður-Asíu er til dæmis glöggt dæmi um það hversu hratt veiran getur lamað heilbrigðiskerfi og valdið hamförum. Það þarf að bregðast við þessari misskiptingu enda eiga allir sama rétt á að fá bólusetningu. Það hefur aldrei verið jafn mikil þörf á samstöðu eins og nú,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, leiðir innkaup og dreifingu bóluefnanna til efnaminni ríkja heimsins fyrir hönd COVAX-samstarfsins. COVAX-samstarfið er samstarf um 190 ríkja sem tryggja á jafna dreifingu bólu­efnis gegn kórónaveirunni meðal ­efnaminni­ ríkja heims­ins. Nú þegar hefur COVAX-samstarfið komið 78 milljónum skammta til 126 landa, má þar nefna Sýrland, Ghana, Bólivíu, Úkraínu, Mongólíu, Suður-Súdan, Fílabeinsströndina, Kambódíu, Kíribati og Afganistan.“

Hægt er að fylgjast með þróun bóluefna gegn COVID-19 og árangri COVAX-samstarfsins í sérstöku mælaborði hér.

Frá bólusetningu í Eþíópíu.UNICEF

Skora á efnameiri ríki að gefa umframskammta 

„Þrátt fyrir ítrekuð áköll frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), UNICEF og fleiri stofnunum hefur bóluefnum gegn COVID-19 verið mjög misskipt milli ríkja heimsins. Ástandið á Indlandi hefur valdið því að mikið hefur dregið úr framboði bóluefna til COVAX á sama tíma og mörg efnameiri lönd hafa tryggt sér mun fleiri skammta en þau þurfa. Minna en eitt prósent af bóluefnum sem hafa verið framleidd hafa skilað sér til efnaminni ríkja heimsins,“ segir í tilkynningu frá UNICEF.

„Ef efnaminni ríki heimsins eru skilin eftir er hætta á að ný afbrigði veirunnar breiðist út um heiminn. Vart þarf að fjölyrða um hversu skelfilegar afleiðingar slíkt hefur á börn um allan heim og þeirra framtíð. UNICEF hefur því sent út alþjóðlegt ákall þar sem skorað er á efnameiri ríki heimsins að gefa umframskammta sína. Nokkur ríki hafa svarað kallinu og vonir standa til um að slík loforð verði einnig gefin á leiðtogafundi G7 ríkjanna sem fer fram í lok vikunnar. UNICEF bendir á að G7 ríkin gætu gefið 20 prósent af bóluefnum sem til eru til COVAX án verulegra tafa á núverandi áætlunum um að bólusetja fullorðna íbúa sína í sumar og er UNICEF tilbúið að dreifa þeim. Íslensk stjórnvöld tilkynntu í síðustu viku að heita 500 milljónum króna til COVAX-samstarfsins til viðbótar við það sem stjórnvöld höfðu áður lagt til. Ísland hefur því nú varið rúmum milljarði króna til að tryggja jafna dreifingu bóluefna.“

32 tonn af bóluefni á flugvelli í Venezuela.UNICEF

Fyrirtæki á Íslandi hafa einnig brugðist við og næstu vikur munu Krónan, Te&Kaffi og BM Vallá bjóða viðskiptavinum sínum að styðja söfnun UNICEF og gefa fyrirtækin framlag á móti. Þá þegar hafa Alvogen og Alvotech gefið 100 þúsund dollara í átakið. Einnig taka Vörður, Deloitte og Lindex þátt í átakinu.

„Við erum bandamönnum okkar innilega þakklát og vonumst til þess að sem flestir hjálpi okkur að takast á við þetta sögulega verkefni. Þetta ógnarstóra verkefni, að bólusetja heimsbyggðina, bætist ofan á öll önnur verkefni UNICEF í þágu barna og því er mikil þörf á auknum stuðningi. Við stöndum frammi fyrir áskorun sem allur heimurinn þarf að hjálpast við að leysa og það þarf að gerast núna,“ segir Birna að lokum.

Hægt er að styðja átakið með því að senda SMS-ið COVID í númerið 1900 og tryggja þar með dreifingu bóluefnis fyrir þrjá einstaklinga. Einnig er hægt að styðja með frjálsu framlagi hér.


Tengdar fréttir

„Co­vid lýkur ekki fyrr en því lýkur alls staðar“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir baráttuna við kórónuveiruna hvergi nærri búna, þrátt fyrir að bjartari tímar séu fram undan hér á landi. Enn sé langt í land og segir Víðir að við verðum að taka þátt í alþjóðlegri baráttu gegn veirunni.

500 milljóna viðbótarframlag til COVAX

Íslensk stjórnvöld hafa talað fyrir mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu um þróun og framleiðslu bóluefnis og jafns aðgangs ríkja óháð greiðslugetu þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×