Skoðun

Á­skorun til fyrir­­­tækja landsins

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Það eru þúsundir landsmanna að sækja um auglýst störf um þessar mundir. Því miður örlar á því að fyrirtæki hafi ekki fyrir því að svara fólki. Það að fá engin viðbrögð við áhuga sínum á starfi er niðurbrjótandi og dregur kraftinn úr atvinnuleitendum.

Ég vil því skora á öll fyrirtæki landsins um að sýna atvinnuleitendum þann sóma að svara öllum umsóknum. Þetta þarf ekki að vera flókið, staðlaður tölvupóstur er betra en ekki neitt. Fólk sem hefur varið tíma sínum í það að kynna sér fyrirtækið og vanda til umsóknar á skilið að því sé sýnd sú virðing að umsókninni sé svarað og þakkað sé fyrir auðsýndan áhuga.

Þetta er ekki bara spurning um almenna kurteisi og mannasiði heldur er þetta líklega ódýrasta og skilvirkasta markaðsaðgerð sem fyrirtæki geta farið í. Umsækjendur eru viðskiptavinir og neytendur og því hlýtur það að vera í þágu fyrirtækisins að koma í veg fyrir það að atvinnuleitendur fái neikvæða mynd af fyrirtækinu.

Mörg fyrirtæki standa sig mjög vel og eiga hrós skilið en því miður er enn langt í land.

Það er kúnst að hafna fólki en viðhalda góðum viðskiptatengslum.

Kurteisi kostar ekkert.

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×