Innlent

Taka hraðpróf í notkun á mánudag

Birgir Olgeirsson skrifar

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun á mánudag taka í notkun hraðpróf til að greina kórónuveiru í fólki. Hraðprófið er mun fljótvirkara og ódýrara en próf sem hafa verið notuð hingað til og er vonast til að það létti álagi á heilbrigðiskerfið sem ferðamannastraumurinn veldur.

Hraðprófin eru ekki ætluð þeim sem ætla í einkennasýnatöku, aðeins þeim sem þurfa neikvæða niðurstöðu til að komast inn í annað land. Hraðprófið skilar niðurstöðu á klukkustund en það getur tekið 24 klukkustundir að fá niðurstöðu úr PCR-prófum. Hraðprófið krefst aðeins sýni úr nefi, ólíkt PCR-prófi þar sem sýni er tekið úr nefi og hálsi.

Margrét Héðinsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir fólk þurfa að athuga vel hvort landið sem það ætlar til taki hraðprófið gilt. Ísland gerir það til dæmis ekki. 

„En það eru mörg lönd sem leyfa fólki að koma með hraðpróf. Hraðprófið er ódýrara, það kostar 4.000 krónur, en PCR-prófið kostar 7.000 krónur. Þannig að það eru reglurnar í hverju landi fyrir sig sem ákveða þetta,“ segir Margrét Héðinsdóttir. 

Óvissuþáttur þessara hraðprófa eru þó hærri en PCR-prófana. Ef einhver greinist með kórónuveiruna í hraðprófi þarf viðkomandi að undirgangast PCR-próf hér á landi í framhaldinu. 

Vonast er til að hraðprófin létti álagi á heilbrigðiskerfið.

„Það er allt að springa út í þessari ferðamennsku og fjöldinn allur að fara úr landi og það er ekki hægt að gera PCR-próf fyrir alla. Ef löndin viðurkenna hraðpróf inn í landið, þá getum við boðið upp á það,“ segir Margrét. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×