Erlent

Gríðarstór vatnspyttur stækkar og stækkar og ógnar bóndabæ

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pytturinn myndaðist í maí síðastliðnum en hefur stækkað síðan og ógnar nú húsinu á jörðinni.
Pytturinn myndaðist í maí síðastliðnum en hefur stækkað síðan og ógnar nú húsinu á jörðinni. AP/Pablo Spencer

Stór vatnspyttur sem myndaðist skyndilega á jörð í ríkinu Puebla í Mexíkó í maí síðastliðnum hefur stækkað og stækkað og er nú á stærð við knattspyrnuvöll. Nú er svo komið að jarðvegur undir býlinu á jörðinni er farinn að láta undan.

Yfirvöld í Puebla greindu frá því í gær að þau hefðu bjargað tveimur hundum úr pyttnum en þeir höfðu verið fastir ofan í honum í fjóra daga. Björgunaraðgerðir reyndust erfiðari en ella, þar sem sífellt brotnar úr brúnum pyttsins.

Pytturinn er 125 metrar í þvermál og 15 metra djúpur. 

Hermenn hafa verið sendir á vettvang til að halda forvitnum í hæfilegri fjarlægð, þar sem pytturinn stækkar dag frá degi. „Þetta er ekki ferðamannastaður eða staður til að heimsækja með fjölskyldunni,“ hefur AFP eftir fulltrúa yfirvalda.

„Þetta er afar erfiður tími. Þetta er sárt, því þetta er allt sem við eigum,“ segir Magdalena Xalamigua Xopillacle, sem á húsið sem virðist eiga þau örlög í vændum að enda ofan í pyttnum.

Sumir íbúa telja orsök pyttsins gríðarleg grunnvatnsnotkun fyrirtækja í nágrenninu. Yfirvöld benda hins vegar á að svo virðist sem straumar leiki um vatnið í pyttnum og því sé orsökin líklega vatnsrennsli neðanjarðar, til dæmis neðanjarðará.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×