Skoðun

Veldu hug­rekki fram yfir þægindi

Ásta Kristín Sigurjónssdóttir skrifar

Þegar mig langar að hreinsa hugann og sækja mér andlega uppliftingu þá fer ég oftast út að hlaupa og hlusta gjarnan á hlaðvörp. Reyndar gerist það þá jafnhraðan að í stað þess að hreinsa hugann fyllist hann af nýjum hugmyndum og andgift sem er sannarlega ekki af verri endanum heldur. Í einni svona hlaupahlustun var í eyrunum þátturinn Normið (sem reyndar verður nánast alltaf fyrir valinu). Að þessu sinni var umræðan „Hugrekki eða þægindi?“

Ég verð að segja að um leið og þessi umræða byrjaði kom uppí hugann minn akkúrat það sem ég hef svo oft hugsað en alls ekki nógu oft sagt upphátt: Svona vinnur Þórdís Kolbrún! Hún velur hugrekki framyfir þægindi í nánast öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Það að taka stórar ákvarðanir sem varða miklar breytingar sem til lengri tíma munu vinna beint inní tilgang og kjarna íslensks samfélags, það er hugrekki. Hugrakkar ákvarðanir eru ekki alltaf þær vinsælustu en þær eru allar teknar með hjartað á sínum stað og með heildar hagsmuni og stóru myndina í huga. Það er stundum erfitt og óþægilegt að leiða fólk í gegnum nýsköpun og breytingar en með verklagi sínu hefur Þórdís Kolbrún sýnt að hún er traustsins verð.

Það að við eigum val um svo einstakan stjórnmálamann, sem veit og skilur, hlustar og framkvæmir, það eru forréttindi í sjálfu sér. Það að við eigum val um stjórnmálamann sem skilur að þarfir landsbyggðarinnar eru öðruvísi en stórborgarinnar, beitir sér fyrir orkuskiptum, hugbúnaðarþróun og skilur mikilvægi þess að nýsköpun sé ekki lúxus heldur þörf, það er einstakt. Það að við eigum val um stjórnmálamann sem aðskilur sig ekki frá öðrum, er jarðbundin og heil, treystir fólkinu fyrst og er fær um að hlusta á mismunandi sjónarmið, það er skynsamlegt val.

Veljum hugrekki og sækjum okkur innblástur í að gera ekki hlutina innan þægindarammans því þar hvorki stækkum við né þróumst. Breytingar taka á, samfélagið sem bíður okkar er ekki það sama og var. Við þurfum sterka rödd sem þorir, skilur og getur. Þar fer fremst í flokki Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Höfundur er Ásta Kristín Sigurjónsdóttir.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×