Viðskipti erlent

Markaðs­virði Coca Cola hríð­lækkar daginn eftir upp­á­tæki Ron­aldos

Atli Ísleifsson skrifar
Cristiano Ronaldo fjarlægir kókið á fréttamannafundinum í Búdapest. Hann hvatti jafnframt fólk til að drekka vatn.
Cristiano Ronaldo fjarlægir kókið á fréttamannafundinum í Búdapest. Hann hvatti jafnframt fólk til að drekka vatn.

Markaðsvirði Coca Cola lækkaði um fjóra milljarða Bandaríkjadali í gær, daginn eftir að portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo fjarlægði tvær kókflöskur af borðinu á fréttamannafundi portúgalska landsliðsins í tengslum við EM í fótbolta sem nú stendur yfir.

Guardian segir frá því að hlutabréf hafi lækkað um 1,6 prósent, nær samstundis eftir uppátæki Portúgalans. Það samsvarar því að markaðsvirði hafi lækkað um fjóra milljarða dala, eða um 490 milljaðar íslenskra króna.

Á fréttamannafundinum fjarlægði Ronaldo kókflöskurnar sem hafði verið komið fyrir þar í auglýsingaskyni og hvatti hann á sama tíma fólk til að drekka vatn.

Í yfirlýsingu frá Coca Cola, sem er opinber styrktaraðili Evrópumótsins, til Guardian segir að „allir hafi rétt á að hafa mismunandi smekk og þarfir“.

Talsmaður Evrópumótsins segir sömuleiðis í samtali við breska blaðið að einnig sé boðið upp á vatn og kók án sykurs á fréttamannafundunum sem tengjast mótinu.

Ronaldo er sannkölluð ofurstjarna og er með nærri 300 milljónir fylgjenda á Instagram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×