Fá stig aðskilja liðin fyrir neðan topplið Fram sem er búið að stinga af með 21 stig. Fjölnismenn voru fyrir umferðina í öðru sætinu með 13 stig, stigi á undan Grindavík, en Kórdrengir voru með 12 og ÍBV 11 stig.
Fjölnir heimsótti Vestmannaeyjar í kvöld og mættu liði ÍBV. Þar skoraði Sigurður Grétar Benónýsson eina mark leiksins eftir 18 mínútna leik eftir stoðsendingu Telmo Castanheira. ÍBV vann því 1-0 og komst með sigrinum upp fyrir Fjölni á markatölu.
ÍBV fór þó ekki í annað sætið þar sem Kórdrengir, sem voru með stigi meira en þeir fyrir kvöldið, unnu 1-0 sigur á Þór á Akureyri. Þórir Rafn Þórisson skoraði þar sigurmarkið stundarfjórðungi fyrir leikslok.
Kórdrengir eru því í öðru sætinu með 15 stig, stigi á undan ÍBV og Fjölni sem eru með 14 stig. Þór er í áttunda sæti með sjö stig.