Erlent

Raisi sigurvegari í Íran

Árni Sæberg skrifar
Ebrahim Raisi (t.h.) verður næsti forseti Írans eftir að sérstök kjörnefnd hafnaði mörgum þekktum frambjóðendum.
Ebrahim Raisi (t.h.) verður næsti forseti Írans eftir að sérstök kjörnefnd hafnaði mörgum þekktum frambjóðendum. Vísir/EPA

Ebrahim Raisi bar sigur úr býtum í forsetakosningum í Íran. Níutíu prósent atkvæða hafa verið talin og Raisi hefur hlotið rúmlega helming þeirra.

Ebrahim Raisi er forseti Hæstaréttar Írans og er almennt talinn harðlínuíhaldsmaður. Frjálslyndir Íranir sniðgengu kosningarnar og hafa sakað kosningaryfirvöld um að haga kosningunum þannig að sigur Raisi væri tryggður. 

Einungis sjö frambjóðendum var leyft að taka þátt í kosningunum. Klerkaveldið, undir stjórn æðstaklerksins Ali Khomeini, hafnaði umbótasinnum og bandamönnum Hassans Rouhani, fráfarandi forseta Írans. Stjórnarskrá Írans kemur í veg fyrir að Rouhani geti sóst eftir endurkjöri sjálfur. Mahmoud Ahmadinejad, fyrrverandi forseti, er á meðal þeirra sem fékk ekki leyfi til að bjóða sig fram.

Sá frambjóðandi sem talinn var líklegastur til að veita Raisi einhverja samkeppni um forsetaembættið er seðlabankastjórinn fyrrverandi, Abdolnasser Hemmati. Sigurlíkur hans voru takmarkaðar þar sem stuðningsmenn hans ákváðu að sniðganga kosningarnar.

Raisi hefur verið sakaður um alvarleg mannréttindabrot í gegn um tíðina. Til að mynda er hann sagður ábyrgur fyrir aftökum pólitískra andstæðinga Khomeini árið 1988.

Formlegar tölur um kjörsókn hafa ekki verið gefnar út en þegar hafa 90 prósent, eða alls 28 milljónir, atkvæða verið talin. Athygli vekur að 59 milljónir eru á kjörskrá í Íran og kjörsókn því ansi dræm. 


Tengdar fréttir

Íranir ganga að kjör­borðinu

Forsetakosningar fara fram í Íran í dag þar sem allir þeir fjórir sem til greina koma sem arftaki Hassan Rouhani eru taldir vera harðlínumenn.

Vonleysi kjósenda fyrir forsetakosningar í Íran

Kjósendur í Íran eru ekki vongóðir um úrslit forsetakosninganna sem fara fram í landinu á morgun hafi merkjanleg áhrif á lífsgæði þeirra. Búist er við slakri kjörsókn í kosningunum sem eru taldar munu festa völd Ali Khamenei, æðstaklerks, enn frekar í sessi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×