Innlent

Hrútur olli miklum skemmdum á Þingvöllum

Árni Sæberg skrifar
Hrúturinn glotti út í annað þegar hann virti fyrir sér skemmdirnar.
Hrúturinn glotti út í annað þegar hann virti fyrir sér skemmdirnar. Einar Á. Sæmundsen

Mannýgur hrútur olli miklu tjóni á Þingvöllum í vikunni þegar hann stangaði rúðu á gestastofunni á Þingvöllum. Morgunblaðið greindi frá atvikinu í morgun.

Þjóðgarðsverðir máttu þakka ruglingi hrútsins að rúðan brotnaði en ekki þeir. Verðirnir hugðust reka hrútinn brott en hann brást ókvæða við og ætlaði að hjóla í þá.

Blessunarlega sá hrúturinn þá ógn sem hann taldi meira aðkallandi en landverðina, eigin spegilmynd.

Hrúturinn réðst á eigin spegilmynd og stangaði rúðuna með þeim afleiðingum að hún mölbrotnaði. Tjónið eftir hrútinn er talið nema um einni milljón króna. Ólíklegt er að hrúturinn verði látinn bera skaðabótaábyrgð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×