Fótbolti

Hatar nútímafótbolta: „Vildi að VAR væri ekki til“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Thiago segir tíunda svokölluðu vera útdauða.
Thiago segir tíunda svokölluðu vera útdauða. Diego Souto/Quality Sport Images/Getty Images

Thiago Alcantara, leikmaður Liverpool á Englandi og spænska landsliðsins, segist ekki hrifinn af nútímafótbolta. Tæknin sé skaðleg og einstaklingsgæði fái ekki lengur að njóta sín.

Thiago var í vandræðum með að sýna sínar bestu hliðar á sinni fyrstu leiktíð með Liverpool sem er nýafstaðin. Hann byrjaði á bekknum í fyrsta leik Spánar á EM gegn Svíþjóð en gæti byrjað þegar liðið mætir Póllandi klukkan 19:00 í kvöld.

Hann var í viðtali við breska miðilinn Guardian hvar hann deildi þessum skoðunum sínum á fótboltanum í dag. Thiago gagnrýnir hversu líkamlegur boltinn í dag er orðinn og segir aukinn hraða leiksins jaðarsetja hæfileikaríka leikmenn. Hin hefðbundna tíu sé nánast útdauð, líkt og listin sem felst í því að hlaupa með boltann og taka leikmenn á.

„Ég er með 'hatur á nútíma fótbolta' viðhorf, ég er hefðbundari í skoðunum. Tían er nánast horfin. Við sjáum minni töfra og minna ímyndunarafl. Fótboltamenn gera meira en hraðar.“

„Það er engin þörf fyrir hlaup með bolta, vegna þess að þú hleypur [án hans]. Leikmenn eru þróaðri. Þú tapar þessum leikmanni sem er öðruvísi, sem 'andar',“

Hann segir þá myndbandsdómgæslu lítið hjálpa til við þetta viðhorf sitt.

„Svo er það VAR. Ég hef alltaf verið gegn því og ég vildi að það væri ekki til. Það tekur kjarnan úr leiknum frá þér. Það tekur burt lævísina og uppátækin sem eru hluti af boltanum - auðvitað svo lengi sem þú meiðir engan.“

„Við gerum mistök þegar við spilum. Dómararnir munu gera það líka, þar sem þeir eru mennskir. Án bragða hefðu mörg stræstu augnablikin í sögu fótboltans aldrei orðið. Umfram allt, ef við skorum, jafnvel af miðjunni, þurfum við þó að bíða, því gæti verið snúið við.“ segir Thiago.

Thiago verður í leikmannahópi Spánar sem mætir Póllandi klukkan 19:00 í kvöld. Sá leikur verður í beinni á rásum Stöðvar 2 Sport.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×