Innlent

Bólusett með Janssen og Pfizer í vikunni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frá bólusetningu í Laugardalshöll í Reykjavík.
Frá bólusetningu í Laugardalshöll í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Framundan er stór vika í bólusetningum en bólusett verður með bóluefnunum frá Janssen, Pfizer og AstraZeneca, það er að segja ef síðastnefnda berst í tæka tíð.

Von er á 46 þúsund skömmtum af bóluefnunum frá Pfizer, Moderna og AstraZeneca í vikunni að því er fram kemur í Morgunblaðinu en bólusetning með efninu frá Moderna er ekki á dagskrá í vikunni.

Á morgun verður bólusett með efninu frá Janssen. Boð hafa fengið karlar fæddir 1990, 1991, 1995, 1998 og konur fæddar 1985, 1989, 1990, 1991, 1995 og 1999.

Aðrir sem hafa fengið boð í bólusetningu með bóluefninu frá Janssen en hafa ekki komist geta mætt eftir kl. 14, á meðan birgðir endast.

Á miðvikudag verður bólusett með efninu frá Pfizer. Um er að ræða seinni bólusetningu. Þá fá ungmenni fædd 2005 boð þennan dag. Einnig fá boð karlar fæddir 1980 og 1989 og konur fæddar 1987 og 1994.

Eftir kl. 15 geta þeir komið í bólusetningu sem áður hafa fengið boð í Pfizer, á meðan birgðir endast.

Á fimmtudaginn verður svo seinni bólusetning með efninu frá AstraZeneca, að því gefnu að það berist hingað til lands í tæka tíð. Nánari upplýsingar um hverjir fá boð verða birtar á heimasíðu Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu seinna í dag.

52,1 prósent þjóðarinnar eru nú fullbólusett gegn Covid-19 og 28,8 prósent hálfbólusett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×