Sport

Katrín Tanja og Anníe Mist mæta sérmerktar til leiks á heimsleikunum í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir er búin að máta keppnisbúninginn sinn á heimsleikunum.
Katrín Tanja Davíðsdóttir er búin að máta keppnisbúninginn sinn á heimsleikunum. Instagram/@nobull

NOBULL er aðalstyrktaraðili heimsleikana í CrossFit og það verður boðið upp á nýjungar í klæðnaði keppenda í ár. Gullár okkar bestu kvenna munu því ekki fara framhjá neinum.

Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir eru báðar búnir að tryggja sér sæti á heimsleikunum í ár, Anníe Mist í ellefta skiptið og Katrín Tanja á sjöundu heimsleikunum í röð og níunda skiptið alls.

Ólíkt fyrri árum þá munu þær tvær mæta sérmerktar til leiks á leikana. Heimsleikarnir fara fram í Madison í Wisconsin fylki í Bandaríkjunum og standa frá 27. júlí til 1. ágúst.

Fjórir Íslendingar komust á leikana í ár því Björgvin Karl Guðmundsson og Þuríður Erla Helgadóttir verða einnig með.

Þær Anníe Mist og Katrín Tanja eru aftur á móti tveir af fjórum heimsmeisturum í kvennaflokki sem komust á heimsleikana í ár en hinar eru Tia-Clair Toomey og Samantha Briggs.

Anníe Mist varð heimsmeistari árin 2011 og 2012 en Katrín Tanja vann heimsmeistaratitilinn 2015 og 2016. Síðan þá hefur Toomey unnið fjögur ár í röð.

Eins og fótboltalandsliðin á stórmótum, sem eru með heimsmeistarastjörnur á búningum sínum, þá mæta Katrín Tanja og Anníe Mist með heimsmeistaramerkingu á sínum keppnisbúningum á heimsleikunum í ár.

NOBULL kynnti keppnisbúningana í gær og þar má sjá myndir af Katrínu Tönju í nýja sérmerkta búningum eins og sjá má hér fyrir ofan. Þar má sjá heimsmeistaratitla stelpnanna framan á búningi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×