Innlent

Vill endur­skoða fyrir­komu­lag skóla­sunds vegna van­líðanar barna

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Umboðsmaður barna telur að ákveðinn hópur barna upplifi vanlíðan og óöryggi í skólasundi.
Umboðsmaður barna telur að ákveðinn hópur barna upplifi vanlíðan og óöryggi í skólasundi. Vísir

Salvör Nordal, umboðsmaður barna hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneyti bréf þar sem hún hvetur til þess að fyrirkomulag sundkennslu í grunnskólum verði endurskoðað. Hún telur ákveðinn hóp upplifa óöryggi og vanlíðan í sundtímum.

Í aðalnámskrá er meðal annars að finna hæfniviðmið fyrir skólaíþróttir. Samkvæmt þeim viðmiðum eiga nemendur grunnskóla við lok 10. bekkjar að geta sýnt leikni og synt viðstöðulaust í bringusundi, baksundi, skriðsundi, flugsundi og kafsundi auk þess að geta troðið marvaða.

Umboðsmaður barna telur þessar kröfur vera umfram það sem nauðsynlegt er til þess að nemendur geti stundað líkamsrækt á öruggan hátt eftir útskrift úr grunnskóla. 

Í aðalnámskrá kemur fram að aukin sundfærni styrki sjálfsmynd og auki sjálfsöryggi einstaklingsins. Í samtölum umboðsmanns barna við nemendur kemur þó fram að ákveðinn hópur nemenda upplifi óöryggi og vanlíðan í sundtímum, þar sem þeir eigi erfitt með að uppfylla þær miklu kröfur sem gerðar eru til þeirra.

Þá hafa nemendur og þá sérstaklega hinsegin nemendur, lýst upplifun af einelti og áreitni í sundkennslu. Í aðalnámskrá segir að auðvelt sé að tengja umræðu um kynímyndir, einelti og ofbeldi við sundkennslu, en lítil framkvæmd virðist vera um slíka umræðu.

Í bréfinu segir að stór hópur barna hafi lýst yfir efasemdum um að skipulag skólastarfs í grunnskólum endurspegli breyttar áherslur á vinnumarkaði og í samfélaginu. Þá hafa nemendur komið á framfæri hugmyndum um að sundkennsla í efstu bekkjum grunnskóla verði gerð valkvæð að einhverju leyti, standist nemendur stöðupróf og hafi þar með sýnt fram á viðunandi hæfni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×