Bólusetningum á landinu lýkur þann 13. júlí í bili þegar við tekur sumarfrí hjá starfsfólki heilsugæslunnar sem hefur sinnt verkefninu. Þær hefjast síðan aftur um miðjan ágúst, með breyttu fyrirkomulagi þó, að því er fram kemur inni á vef heilsugæslunnar.
Einungis á eftir að bólusetja fólk með seinni sprautu næstu tvær vikurnar og verður þá notast við bóluefni Moderna, Pfizer og AstraZeneca.
Aðeins þarf einn skammt af bóluefni Janssen og verða þeir skammtar sem til eru af því notaðir fyrir þá sem enn hafa ekki fengið bólusetningu.
Hafi einhver því ekki komist í bólusetningu sína eða á eftir að fá bólusetningu af öðrum ástæðum getur sá hinn sami því farið inn á síðu sína á heilsuveru.is og haft samband við heilsugæsluna í gegnum netspjall.
Þeir sem gera þetta verða settir á lista og hefur heilsugæslan hugsað sér að safna saman hópi og boða síðan í bólusetningu með Janssen þegar hæfilega margir hafa skráð sig. Ekki eru enn komnar dagsetningar á þessar bólusetningar.