„Þegar Britney talaði, þá hlustaði allur heimurinn. Það var ótrúlegt. En hvort dómarinn kaupi þetta og veiti henni sjálfræði, það held ég ekki,“ segir Peter Walzer, lögmaður sem sérhæfir sig í fjölskyldumálum.
Í ræðu sinni talaði Britney af mikilli ástríðu um sjálfræðissviptinguna og nefndi meðal annars að hún væri neydd til þess að vera á getnaðarvörn án hennar vilja. Það er því ef til vill ekki að undra að tilfinningar hafi ráðið för í ræðu hennar. Ræða Britney skilaði sér til almennings á sannfærandi hátt og er óhætt að segja að allur heimurinn standi á bakvið hana.

Það er þó hætt á því að ástríðan gæti haft öfug áhrif á dómstóla. Britney talaði afar hratt og var beðin um hægja á máli sínu oftar en einu sinni.
Talaði opinskátt um tilfinningar sínar
Lögmaðurinn David Glass segist hræddur um að ræða hennar hafi ekki hjálpað henni. „Orðin komu út úr henni eins og byssuskot. Hún flakkaði stöðugt á milli umræðuefna. Hún kvaðst vera þunglynd og sígrátandi. Ég er ekki sálfræðingur, en þetta bendir til þess að hún sé andlega veik.“
Lögmaðurinn Chris Melcher segir þetta vera ástæðuna fyrir því að lögmenn vilji ekki að umbjóðendur tali of mikið. „Við vitum hvað við eigum að segja og hvernig við eigum að segja það. Stundum kemur vitnisburður umbjóðenda í bakið á þeim og styður frekar mál gagnaðila.“
Þá telur hann að annars konar nálgun Britney hefði verið vænlegri til árangurs. Framkoma hennar hefði mátt vera yfirvegaðri og hún hefði mátt viðurkenna sín fyrri vandamál.