Kristjana var gestur í þættinum EM í dag á Stöð 2 EM í gær þar sem hún rifjaði upp kostulega sögu af því þegar hún fór með pabba sínum, íþróttafréttamanninum Arnari Björnssyni, að sjá Ísland mæta Spáni á Laugardalsvelli árið 2006. Þar var hún með augun á Fernando Torres allan tímann:
„Hann var í raun og veru fyrsta ástin í lífi mínu. Ég var svo skotin í honum. Ég hugsaði um hann oft á dag,“ sagði Kristjana létt í bragði en best er að hlusta á hana segja söguna í myndbandinu hér að neðan.
„Þeir komu hingað Spánverjarnir, 2006, og spiluðu vináttulandsleik við okkur. Ég var því komin á Laugardalsvöll, á afmælisdaginn minn, 16. ágúst. Ég varð sextán ára þennan dag og fékk að fara með pabba á völlinn. Hann var að vinna í kringum leikinn – fara í viðtöl og svona eftir leik.
Ég sit í stúkunni og er með svona digital myndavél, þessa gömlu góðu, og er allan leikinn að súmma á Torres og taka myndir. Það var ekkert annað á vélinni en súmm-myndir af Fernando Torres sem ég hélt auðvitað að væru í æðislegum gæðum, en þegar ég kom heim sá ég að það var engin í fókus. Ég var að vona að kannski kæmust mínar myndir á forsíðu Moggans eða eitthvað, en það var ekki svo,“ sagði Kristjana.
Hún komst svo að því í bílnum á leiðinni heim að hún hefði líklega getað komist mun nær Torres, með því að fylgja pabba sínum í viðtölin:
„Ég var ein í stúkunni því pabbi var bara að vinna. Svo vorum við á leið heim eftir leik og erum einhvers staðar á Miklubrautinni þegar hann segir allt í einu: „Ahh, ég fattaði ekki að ég hefði náttúrulega getað tekið þig með niður og við hitt strákana.“ Það brotnaði eitthvað inni í mér, á afmælisdaginn,“ sagði Kristjana létt og skaut á pabba sinn.