Innlent

Telur mögu­legt að lög­regla hafi átt við fleiri upp­tökur

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Lögreglan getur sjálf klippt upptökur úr búkmyndavélum sínum til og afmáð hljóð af þeim hlutum þeirra sem henni sýnist.
Lögreglan getur sjálf klippt upptökur úr búkmyndavélum sínum til og afmáð hljóð af þeim hlutum þeirra sem henni sýnist. vísir/vilhelm

Nefnd um eftir­lit með lög­reglu skoðar nú hvort til­efni sé til að taka aftur upp fjögur mál eftir að í ljós kom að lög­reglan getur sjálf átt við upp­tökur búk­mynda­véla sinna. Skúli Þór Gunn­steins­son, for­maður nefndarinnar, vill ekki upp­lýsa um hvaða mál þetta séu á þessu stigi því nefndin hefur ekki enn tekið form­lega á­kvörðun um fram­haldið.

„Þetta eru tvö mál þar sem upp­taka hefst annars vegar í lok af­skipta og hins vegar þegar hand­taka er yfir­staðin,“ segir Skúli. „Síðan eru tvö mál þar sem hljóðið er annars vegar sagt bilað og hins vegar að gleymst hafi að kveikja á hljóði.“

Vissi ekki að lögreglan gæti átt við upptökur

Nefndin hefur eins og er engin úr­ræði til að sann­reyna það hvort hljóð sé bilað í tækjunum eða ekki. „En þeir hafa þetta – þeir geta tekið hljóðið út greini­lega.“

Skúli tekur það fram að nefndin sé ekki að væna lög­regluna um neitt: „Og það getur vel verið að það sé allt í lagi með þessi mál. En það er bara dá­lítið erfitt fyrir nefndina að segja „heyrðu jú þetta verk­lag var bara allt í lagi“ þegar maður veit ekki hvort eitt­hvað annað hafi farið fram.“

Hann segist hafa trúað því, mögu­lega í ein­feldni sinni, að lög­reglan gæti ekki átt sjálf við upp­tökur úr búk­mynda­vélum sínum.

Annað kom hins vegar í ljós þegar nefndin fjallaði um störf lög­reglunnar í Ás­mundar­salar­málinu svo­kallaða. Hún fékk þá upp­tökur úr búk­mynda­vélum af­hentar en þegar þær voru skoðaðar hafði sam­tal lög­reglu­manna, sem nefndin mat síðan á­mælis­vert, verið af­máð úr upp­tökunum.

Hér má sjá búkmyndavél lögreglumanns.vísir/vilhelm

„Það kom okkur mjög á ó­vart að lög­reglan gæti átt svona við upp­tökurnar,“ segir Skúli. „Við héldum bara í okkar sakleysi að þær væru læstar. Af því þetta eru mikilvæg sönnunargögn.“

Hann segir þá að í langflestum tilvikum komi upptökur úr búkmyndavélum lögreglunni sjálfri til góða.

Staðfestir frásögn lögreglu

Hann segir að nefndin telji ekki að lög­regla hafi verið að reyna að leyna gögnum í Ás­mundar­salar­málinu og stað­festir það sem lög­regla hefur sagt að nefndin hafi fengið skriftað sam­tal með upp­tökunum sem búið var að eiga við og á endanum réttu upp­tökurnar þegar óskað var eftir þeim.

Upp­runa­lega út­gáfan, þar sem búið var að afmá sam­tal lög­reglu­mannanna, var sama út­gáfa og réttar­gæslu­menn fengu. Sam­talið hafði verið af­máð vegna þess að lög­regla taldi það ekki tengjast málinu beint.


Tengdar fréttir

Ráðherra mun ræða við lögregluna um afhendingu gagna

Dómsmálaráðherra segir það óeðlilegt ef átt hefur verið við upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna sem leystu upp samkomu í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Málið er nú á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Dómsmálaráðherra mun ræða málið við lögreglustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×