Stefan Löfven sagði í gær af sér embætti sem forsætisráðherra, viku eftir að þingið samþykkti vantraust á hann.

Norlén, sem kjörinn var sem þingmaður hægriflokksins Moderaterna, hefur áætlað hálftíma með hverjum flokksleiðtoga, en röð fundanna ræðst af stærð þingflokka. Á Norlén fyrsta fund með Löfven núna klukkan átta, svo Ulf Kristersson, formanni Moderaterna, svo Jimmie Åkesson, formanni Svíþjóðardemókrata. Á eftir þeim fylgja svo formenn Miðflokksins, Vinstriflokksins, Kristilegra demókrata, Frjálslyndra og loks Græningja.
Mats Knutsson, fréttaskýrandi SVT, segir líklegustu niðurstöðuna verða þá að Löfven verði fyrst veitt umboð til stjórnarmyndunar. Segir Knutson að af þeim kostum sem séu í stöðunni sé líklegast að samkomulag muni á endanum nást um áframhaldandi stjórn Jafnaðarmannaflokks Löfvens og Græningja, sem Miðflokkurinn og Vinstriflokkurinn muni verja vantrausti.
Dagskrá þingforseta í dag
- 08:00-08.30 Stefan Löfven, Jafnaðarmannaflokki
- 08.35-09.05 Ulf Kristersson, Moderaterna
- 09.10-09.40 Jimmie Åkesson, Svíþjóðardemókrötum
- 09.45-10.15 Annie Lööf, Miðflokki
- 11.00-11.30 Nooshi Dadgostar, Vinstriflokki
- 11.35-12.05 Ebba Busch, Kristilegum demókrötum
- 12.10-12.40 Nyamko Sabuni, Frjálslyndum
- 12.45-13.15 Per Bolund, Græningjum
- 14.15 Þingforseti með blaðamannafund
Sú leið er þó á engan hátt greið, þar sem Miðflokkurinn hefur ítrekað talað gegn því að flokkarnir yst á hinu pólitíska rófi - Svíþjóðardemókratar og Vinstriflokkurinn - verði veitt aðkoma að stjórn landsins.

Húsnæðismálið
Fráfarandi stjórn Löfvens var einnig minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins og Græningja, sem Miðflokkurinn og Frjálslyndir vörðu vantrausti. Stjórnin var þó einnig háð því að Vinstriflokkurinn myndi verja hana vantrausti.
Vinstriflokkurinn ákvað þó að greiða atkvæði með vantrauststillögu Svíþjóðardemókrata á mánudaginn í síðustu viku vegna ákvörðunar stjórnar Löfvens um að afnema leiguþak á nýju húsnæði.

Fjórar tilraunir
Þingforsetinn Norlén getur fjórum sinnum veitt formönnum umboð til stjórnarmyndunar, en takist ekki að mynda starfhæfa stjórn eftir það þarf lögum samkvæmt að boða til aukakosninga.
Fari svo að boðað verði til aukakosninga þurfa þær að fara fram innan þriggja mánaða. Það breytir því þó ekki að kosningar munu engu að síður fara fram í september 2022 líkt og áður var áætlað.
Aukakosningar hafa þannig ekki áhrif á að þingkosningar fari fram í landinu á fjögurra ára fresti, en kerfið hefur leitt til þess að afar fátítt er að boðað sé til aukakosninga í landinu. Slíkar kosningar fóru síðast fram árið 1958.
Löfven verður starfandi forsætisráðherra þar til ný stjórn verður mynduð.