Erlent

Hundruðum fugla slátrað í Tógó vegna fuglaflensu

Árni Sæberg skrifar
Fuglar í Tógó hafa það ekki gott þessi dægrin.
Fuglar í Tógó hafa það ekki gott þessi dægrin. Getty/Ruslan Sidorov

Fuglaflensan H5N1 kom upp í Djagblé kantónunni steinsnar frá höfuðborginni Tomé í Tógó. Yfirvöld þar í landi hafa fyrirskipað inngripsmiklar aðgerðir til að stöðva útbreiðslu flensunnar.

Landbúnaðar-, umhverfis- og heilbrigðisráðherrar Tógó hafa tilkynnt að bændur á svæðinu þar sem sýkingin kom upp þurfi að slátra, brenna og greftra fugla sína. Óvíst er hversu margir fuglar munu mæta þeim örlögum. Hundruðum fugla hefur þegar verið slátrað á býlinu hvar sýkingin kom upp. Þá verður  bændum einnig gert að farga eggjum, tækjum og fóðri. 

Ráðherrarnir hafa einnig bannað flutning alifuglakjöts innan allrar kantónunnar, rekstur alifuglamarkaða og fæðumarkaða í þrjátíu daga. Þá verður fylgst náið með heilsu þeirra sem komu í návígi við býlið hvar sýkingin kom upp.

„Ráðherrarnir kalla eftir samviskusamlegri virðingu fyrir líföryggisaðgerðum á svæðinu til að hefta útbreiðslu flensunnar. Þeir hvetja bændur til að vera árvökulir og að tilkynna næsta dýraspítala um skyndilegan dauða mikils fjölda alifugla,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytunum þremur.

Grunur um fuglaflensu kom fyrst upp þann þriðja júní síðastliðinn þegar mikill fjöldi fugla lést skyndilega á alifuglabýli í Djagblé. Sýni voru send til sérhæfðrar rannsóknarstofu á Ítalíu sem staðfesti að um fuglaflensu væri að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×