Hljómsveitin Quarashi var um tíma sú allra vinsælasta hér á landi. Fóru þeir meðal annars á tónleikaferðalag um allan heim og komu líka fram með Guns N' Roses, Eminem og fleiri stórum nöfnum. Quarashi þýðir sinnep á japönsku en hljómsveitin komst ekki að því fyrr en þeir spiluðu í Japan í fyrsta skipti.
„Ég vissi það ekkert þegar ég fann upp á nafninu,“ segir Steini um tenginguna. „Þetta er rosaleg tilviljun.“
Steini er gestur vikunnar í þættinum Á rúntinum hér á Vísi. Bjarni Freyr Pétursson og Arnfinnur Rúnar Sigmundsson halda utan um þættina. Í þættinum segir hann frá raunverulegu ástæðunni á bak við nafnið Quarashi og tengist það matvörum á engan hátt. '
„Quarashi er eftirnafnið á Muhamed spámanni, hann var kallaður það, Muhamed Quarashi. Það þýðir sko yfirnáttúrulegt, sjúklega djúpt.“
Í viðtalinu talar Steini um Quarashi tímabilið og segir frá því þegar hljómsveitarmeðlimir komu sér í vandræði með því að drepa rándýra fiska á hóteli í Japan. Auðvitað kemur líka óvæntur leynigestur í heimsókn eins og venjulega.
Þáttinn í heild sinni má finna í spilaranum hér fyrir neðan.