Erlent

Höfðu nokkrar mínútur til að flýja þegar bærinn brann til grunna

Samúel Karl Ólason skrifar
Gróðureldar loga víða í Bresku-Kólumbíu.
Gróðureldar loga víða í Bresku-Kólumbíu. AP/Marshall Potts

Íbúar Lytton í Kanada áttu fótum sínum fjör að launa í gærkvöldi þegar skógareldur umlukti þorpið með litlum fyrirvara. Þeir flúðu í allar áttir en þorpið brann nánast allt til kaldra kola á nokkrum mínútum.

Ráðamenn segja að illa gangi að finna fólkið og ganga úr skugga um að það sé heilt á húfi.

Vegna bilunar í símsendum og rafmagnsleysis eru samskipti á svæðinu erfið og ráðamenn hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir um íbúa sem ekki hefur tekist að ná í.

Í samtali við CBC News segir þingmaður af svæðinu að minnst 90 prósent Lytton hafi brunnið. Það sé erfitt að finna íbúa sem flúðu bæinn en það sé í hæsta forgangi.

Hér má sjá sjónvarpsfrétt CBC frá því í dag.

Lytton er í Bresku-Kólumbíu en gífurleg hitabylgja hefur verið leikið íbúa vesturstrandar Kanada og Bandaríkjanna grátt undanfarna daga. Talið er að hundruð hafi dáið vegna hitabylgjunnar en þegar mest var mældist hittin tæpar 50 gráður í Lytton.

Aldrei áður hefur svo hár hiti mælst í Kanada.

CBC hefur eftir Jan Polderman, bæjarstjóra Lytton, að hann hafi skrifað undir rýmingarskipun klukkan sex að staðartíma í gær. Eldurinn hafi þó umlukt þorpið áður en hægt hafi verið að skipuleggja rýminguna.

„Bærinn brann til grunna,“ sagði Polderman. „Ég tók eftir hvítum reyk suður af bænum og fimmtán til tuttugu mínútum síðar stóð bærinn í ljósum logum.“

Hér má sjá myndefni sem sýnir aðstæður þegar íbúar þurftu að flýja í gær.

Hér er svo tíst frá blaðamanni CBC sem sýnir aðalgötu Lytton og hve mikið tjónið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×