Ein álma Champlain-suðurturnanna, þrettán hæða íbúðablokkar í bænum Surfside nærri Miami, hrundi aðfararnótt laugardagsins 24. júní. Leit að líkamsleifum var hætt tímabundið í gær vegna hættu á að sá hluti byggingarinnar sem eftir stóð gæti hrunið á björgunarfólk.
Leifar turnsins hafa nú verið jafnaðar við jörðu og hafa leitarflokkar fengið leyfi til þess að hefja leit aftur, að sögn AP-fréttastofunnar. Byrjað var á að hreinsa burt nýju rústirnar.
New York Times segir að verkfræðingar sem hafa kannað rústirnar eða skoðað myndir af þeim telji mögulegt að byggingin hafi verið gölluð. Ekki hafi verið notað eins mikið af steypustyrktarjárni í grunn hennar eins og gert var ráð í teikningum.
Sérfræðingur sem bæjaryfirvöld í Surfside fengu til þess að rannsaka hrunið staðfestir við blaðið að merki séu um að minna stál hafi verið notað til að styrkja burðarsúlur í bílakjallara en gert var ráð fyrir. Rannsókn á hruninu sé þó á frumstigum.
Sjónarvottar hafa lýst því að hluti af steypuplötunni yfir bílastæðakjallaranum, sem á voru bílastæði og sundlaugarsvæði á jarðhæð, hafi fyrst fallið saman nokkrum mínútum áður en hluti byggingarinnar hrundi til grunna.
Búist er við að rannsóknin taki fleiri mánuði. Verkfræðingar segja einnig að skortur á stálstyrkingu hafi ekki endilega verið orsök þess að byggingin hrundi en gæti hafa átt þátt í hörmungunum.
Leitar- og björgunarlið reynir nú að komast að bílastæðakjallara hússins sem vonast er til að geti varpað frekara ljósi á hvar glufur kunni að finnast í rústunum. Þar gætu líkamsleifar fólksins sem enn er ófundið leynst. Enginn hefur fundist á lífi í rústunum eftir fyrsta sólarhringinn frá hruninu.