Leitarflokkar fundu líkin þrjú á svæði sem hafði áður verið óaðgengilegt. Leifar byggingarinnar voru jafnaðar við jörðu í gær en áður var talið óöruggt að leita á umræddu svæði vegna óstöðugleika þeirra álma sem eftir stóðu.
Ein álma Champlain-suðurturnanna, þrettán hæða íbúðablokkar í bænum Surfside nærri Miami, hrundi aðfaranótt laugardagsins 24. júní. Ákveðið var að flýta niðurrifi byggingarinnar vegna hitabeltisstormsins Elsu sem stefnir nú á strendur Flórída og einnig til að stækka mögulegt leitarsvæði.
Var gert hlé á björgunaraðgerðum vegna þessa en upphaflega stóð til að niðurrif færi fram seint í júlí. Niðurrifið í gær gekk sem skyldi og féll byggingin ekki á eldri rústir. Í kjölfarið var leitarflokkum leyft að hefja leit á ný, að því er fram kemur í frétt ABC.

Reikna með að finna fleiri
Að sögn Ron DeSantis, ríkisstjóra Flórída, má líklega finna mörg svefnherbergi í þeim hluta sem áður var óaðgengilegur leitar- og björgunarliði. Fjölmargir íbúar voru sofandi þegar hörmungarnar áttu sér stað um miðja nótt.
Verkfræðingar sem hafa kannað rústirnar eða skoðað myndir af þeim telja mögulegt að byggingin hafi verið gölluð. Ekki hafi verið notað eins mikið af steypustyrktarjárni í grunn hennar eins og gert var ráð í teikningum.
Sérfræðingur sem bæjaryfirvöld í Surfside fengu til þess að rannsaka hrunið staðfesti við New York Times að merki séu um að minna stál hafi verið notað til að styrkja burðarsúlur í bílakjallara en gert var ráð fyrir. Rannsókn á hruninu sé þó á frumstigum.