Travis bar upp bónorðið á Loews hótelinu á Santa Monica strönd á afmælisdag Unnar í gær. Hún segir bónorðið hafa verið vel undirbúið. Hann hafði heyrt í vinkonu hennar, fengið vin þeirra til þess að tala myndir í laumi og þá var hann einnig búinn að heimsækja hótelið nokkrum sinnum til þess að passa að tímasetningin á sólsetrinu væri fullkomin.
„Ég datt bara í feitasta lukkupott í heimi og ég elska tilvonandi eiginmann minn (!!) svo heitt að ég gæti sprungið,“ segir Unnur.
Parið byrjaði saman í byrjun árs 2019 og virðist Unnur ástfangin upp fyrir haus. „Það sem ég var heppin að finna hann innan um öll Tinder tröllin í LA. Travis kom inn í líf mitt eins og einhvers konar sexý sólargeisli,“ sagði Unnur í Instagram-færslu á tveggja ára sambandsafmæli þeirra í janúar.
Parið bjó saman úti í Los Angeles þar sem Unnur starfaði sem leikkona. Unnur hefur þó dvalið á Íslandi síðastliðið ár á meðan Covid-19 stóð sem hæst og var parið því í fjarsambandi á meðan.
Unnur hefur getið sér gott orð sem leikkona og birtist meðal annars í þáttunum Systrabönd og stuttmyndinni Sóttkví á þessu ári. Margir þekkja hana þó eflaust sem Sollu Stirðu úr Latabæ eða úr Söngvakeppni Sjónvarpsins þar sem hún tók þátt árið 2013 með lagið Ég syng.
Unnur hafði í nægu að snúast í heimsfaraldrinum. Hún er annar tveggja þáttastjórnenda í hlaðvarpsþættinum Fantasíusvítan sem fjallar um þættina The Bachelor. Þá er hún einnig annar eigandi og skólastýra í Skýinu sem er skapandi skóli sem stofnaður var á síðasta ári.
Unnur var viðmælandi í Einkalífinu fyrr á árinu.