Hópurinn vill meina að lífi íbúa hafi verið stefnt í hættu og að yfirvöld hafi sýnt af sér alvarlega vanrækslu í kjölfar brunans. Í stefnunni segir að blýmagnið í andrúmsloftinu hafi verið stórhættulegt í kjölfar brunans og getað leitt til mikils heilsufarlegs skaða, sérstaklega meðal barna og þeirra sem unnu að uppbyggingu kirkjunnar.
Eins og flestir muna varð Notre Dame fyrir miklum skemmdum eftir að eldur kom upp í kirkjunni í apríl 2019. Þak kirkjunnar og kirkjuturn skemmdust sérstaklega í brunanum og talið er að allt að 460 tonn af blýi hafi fuðrað upp í andrúmsloftið.
Eftir eldsvoðann mældist blýmagn í andrúmsloftinu í garðinum í kring um kirkjuna allt að 500.000 míkrókrömm á fermetra og allt að 20 þúsund míkrógrömm á fermetra á nærliggjandi svæðum. Það er margfalt meira en heilbrigðisyfirvöld í París miða við, sem eru um 5.000 míkrógrömm á fermetra.
Samkvæmt mati Umhverfisstofnunar Frakklands er talið að blýið gæti hafa breiðst út allt að fimmtíu kílómetra út frá kirkjunni.
CGT stéttarfélagið, sem er meðal ákærenda, segir ekki nógu mikið hafa verið gert til að tryggja öryggi verkamanna og íbúa í nágrenni við kirkjuna, þar á meðal barna í nærliggjandi skólum, fyrstu þrjá mánuðina eftir brunann.