Erlent

Fé­lagi í eigu Sam­herja gert að greiða namibískum sjó­­mönnum bætur

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
samherji heinaste

Félagið ArcticNam, sem er í helmingseigu Samherja, hefur verið dæmt í félagsdómi til að greiða 23 namibískum sjómönnum togarans Heinaste samtals 15,7 milljónir íslenskra króna í sáttabætur. Sjómönnunum var sagt upp fyrirvaralaust árið 2019 og skipt út fyrir ódýrara vinnuafl.

Félagsdómurinn reiknaði út árslaun mannanna og samsvarar greiðslan þeim. Þeir fengu engan uppsagnarfrest eða starfslokagreiðslur þegar þeim var sagt upp fyrir tveimur árum.

Togarinn Heinaste var kyrrsettur í lok árs 2019 og var skipstjóri þess handtekinn vegna meintra ólöglegra veiða á hrygningarsvæði undan stöndum Namibíu. Fyrr í ár var kyrrsetningunni aflétt og hefur togarinn nú verið seldur.

Sjómennirnir sóttust einnig eftir að fá greiddar bætur fyrir tapaðan aflahlut og húsnæðisstyrk en félagsdómarinn varð ekki við því. Namibíski fjölmiðillinn New Era greinir frá.

Dómurinn var kveðinn upp þann 24. júní síðastliðinn og verður ArcticNam að vera búið að greiða út bæturnar fyrir 30. júlí.

Virgilio De Sousa, stjórnarformaður í ArcticNam, segir í samtali við New Era að félagið sé meðvitað um dóminn og styðji hann fullkomlega. Hann sagði þá að félagið væri í smá klemmu eins og er þar sem það væri að reyna að gera Samherjamenn ábyrga fyrir því hvernig haldið var á starfsemi félagsins.

Hann segir ekki mikið fara fyrir Samherja í dag og að fyrirtækið hafi á sínum tíma „blóðmjólkað“ félagið. „Svo kom í ljós að þeir voru tengdir Fishrot-skandalnum,“ sagði De Sousa.

Stjórn félagsins kemur saman í vikunni til að ræða dóminn og vandamál sem hafa komið upp síðustu ár. Fulltrúar Samherja munu sitja þann fund, að sögn De Sousa.


Tengdar fréttir

Kyrrsetningu Heinaste aflétt og skipið selt

Namibísk yfirvöld hafa aflétt kyrrsetningu á togaranum Heinaste, sem kyrrsettur var þar í landi í nóvember 2019. Bréf um afléttingu kyrrsetningarinnar var undirritað í gær samhliða sölu á togaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×