Gestirnir tóku forystuna eftir rúmlega 20 mínútna leik. Colleen Kennedy sótti þá aukaspyrnu sem Jakobína Hjörvarsdóttir tók. Jakobína lét vaða og boltinn flaug yfir Tiffany Sornapo í marki Keflvíkinga.
Staðan var því 1-0 í hálfleik, en á 65. mínútu voru gestirnir búnir að tvöfalda forystuna. Colleen skundaði þá inn á teig Keflvíkinga og Tiffany mætti henni. Boltinn hrökk þá af Tiffany í varnarmann, og þaðan fyrir fætur Margrétar Árnadóttur sem kláraði í tómt markið.
Keflvíkingar fengu líflínu á 89. mínútu þegar Amelía Rún Fjeldsted skrúfaði boltann í hornið frá vítateigshorninu.
Heimakonur sóttu seinustu mínúturnar en náðu ekki að skapa sér nægilega gott færi til að jafna leikinn. Það var því Þór/KA sem fór með 2-1 sigur af hólmi.
Með sigrinum lyftir Þór/KA sér úr níunda sæti og upp í það sjöunda með 11 stig. Keflavík er enn með níu stig en fellur úr sjöunda sæti og niður í það áttunda.
Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.