Á sama tíma missa franskar reglugerðir um vínmerkingar, sem hafa hingað til verið virtar á alþjóðavettvangi, allt gildi sitt í Rússlandi. Öll innflutt freyðivín í landinu verða framvegis að vera merkt með miða á bakhlið sinni sem á stendur „freyðivín“.
Freyðivínsframleiðendur í Champagne hafa hingað til einir mátt merkja vín sín sem kampavín. Stimpillinn er talinn sýna fram á ákveðin gæði, því við framleiðslu vínsins er stuðst við aldagamla hefð í héraðinu. Eins og segir á heimasíðu sérstakrar nefndar vínhéraðsins: „Kampavín kemur aðeins frá Champagne“.

Sovét-kampavín alþýðunnar
Hið rússneska Shampanskoye er ódýrt og vinsælt freyðivín í Rússlandi. Það er í raun eftirgerð drykkjar sem var framleiddur í stjórnartíð Stalíns á Sovéttímanum og var kallaður Sovét-kampavín.
Sovét-kampavín átti að koma í staðinn fyrir hefðardrykkinn kampavín og færa þennan munað í hendur almennings.
Hættu við að hætta við útflutning
Málið hefur farið öfugt ofan í framleiðendur kampavíns í Frakklandi. Þeir segja Champagne-héraðið hafa verið niðurlægt með löggjöfinni og krefjast þess að frönsk og evrópsk yfirvöld grípi til aðgerða til að fá þessu breytt til baka.
Framleiðandinn vinsæli Moët Hennessy hótaði um daginn að hætta útflutningi sínum til Rússlands. Framleiðandinn framleiðir nafnþekkt kampavín á borð við Veuve Clicquot, Dom Pérignon, Ruinart, Mercier og Krug.

Síðar bakkaði framleiðandinn með yfirlýsingar sínar og tilkynnti að hann myndi halda sendingum sínum til Rússlands óbreyttum, enda hlýtur markaðurinn þar að vera ansi stór:
„Moët Hennessy hefur alltaf virt lög hjá þeim ríkið sem fyrirtækið er með starfsemi í og mun hefja sendingar aftur um leið og hægt verður að gera breytingar á merkingum vínanna,“ segir í tilkynningunni.