Erlent

Telja engar líkur á að finna fólk á lífi í rústunum

Atli Ísleifsson skrifar
Hluti hins tólf hæða byggingar, Champlain Towers South á Surfside, hrundi um miðja nótt 24. júní.
Hluti hins tólf hæða byggingar, Champlain Towers South á Surfside, hrundi um miðja nótt 24. júní. AP

Borgarstjóri í Miami-Dade á Flórída segir nú engar líkur vera á að finna fólk á lífi í rústum íbúðabyggingarinnar sem hrundi á Surfside í Miami 24. júní síðastliðinn. Því sé starfið þar nú ekki lengur skilgreint sem björgunaraðgerð heldur leitaraðgerð.

Þetta segir Daniella Levine Cava, borgarstjóri í Miami-Dade, en alls hafa lík 54 manna fundist í rústunum. Lík átján íbúa fundust í gær og er unnið að því að bera kennsl á lík þeirra. 86 er enn saknað.

Levine Cava segir að um gríðarlega erfiða ákvörðun hafi verið að ræða, en allt hafi verið gert til að finna fólk á lífi í rústunum.

Hluti hins tólf hæða byggingar, Champlain Towers South, hrundi um miðja nótt 24. júní.

Sérfræðingar frá Ísrael og Mexíkó hafa aðstoðað við leitina, en einnig hefur verið notast við sértækan búnað og sérþjálfaða leitarhunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×