Fótbolti

Þúsund Ítalir fá að fljúga til Lundúna á úrslitaleikinn

Sindri Sverrisson skrifar
Það verða skrautlegir, ítalskir stuðningsmenn á meðal áhorfenda á Wembley á sunnudagskvöld en sjálfsagt í miklum minnihluta.
Það verða skrautlegir, ítalskir stuðningsmenn á meðal áhorfenda á Wembley á sunnudagskvöld en sjálfsagt í miklum minnihluta. EPA/Carl Recine

Þrátt fyrir varnaðarorð ferðamálaráðherra Bretlands þá munu þúsund Ítalir fá að fljúga til Lundúna og mæta á Wembley á sunnudagskvöld, í von um að sjá sína menn landa Evrópumeistaratitlinum með sigri á Englendingum.

Búist er við því að um 60 þúsund áhorfendur verði á úrslitaleik Englands og Ítalíu á Wembley á sunnudagskvöld. Sáralítið hlutfall þeirra ferðast þó á leikinn frá Ítalíu vegna þess að fólk sem ferðast frá Ítalíu til Bretlands þarf samkvæmt núgildandi sóttvarnareglum að fara í tíu daga sóttkví.

Grant Shapps ferðamálaráðherra Bretlands var skýr í máli þegar hann var spurður hvað hann vildi segja við Ítali sem ætluðu sér að ferðast til landsins vegna leiksins: „Ekki gera það. Ef við sjáum fólk vera að koma bara vegna fótbolta þá fær það ekki að koma inn og raunar er búið að aflýsa fjölda fluga út af þessu,“ sagði Shapps við Times Radio.

Fréttaveitan Reuters hefur þó fengið staðfest að þúsund, ítalskir stuðningsmenn, búsettir á Ítalíu, fái að mæta á úrslitaleikinn.

Er fótboltinn að koma „heim“ eða til Rómar? Það kemur í ljós á sunnudagskvöld.EPA/Carl Recine

Þessari undanþágu gáfu bresk stjórnvöld leyfi fyrir gegn því að stuðningsmennirnir verði aðeins í 12 klukkustundir í Bretlandi, ferðist með einkaflugi frá Mílanó og Róm, sýni fram á nýtt, neikvætt Covid-próf, og blandist ekki almenningi í Bretlandi.

Ítalska knattspyrnusambandið hefur staðfest að búið sé að deila út öllum þúsund sætunum. Forseti Ítalíu, Sergio Mattarella, verður svo einn af heiðursgestunum á leiknum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×