Íslenski boltinn

Arn­þór Ingi: Þetta kom beint af æfinga­svæðinu

Andri Gíslason skrifar
Arnþór Ingi var öflugur á miðsvæðinu í kvöld.
Arnþór Ingi var öflugur á miðsvæðinu í kvöld. vísir/hulda margrét

Arnþór Ingi Kristinsson miðjumaður KR var ánægður með 1-0 sigur KR á Keflavík fyrr í kvöld.

„Ég er sáttur með sigurinn og spilamennskuna á köflum. Við hefðum getað gert mun betur oft á tíðum, þá í færanýtingu og halda boltanum betur.“

KR-ingar byrjuðu leikinn af krafti og fengu fullt af færum til að klára leikinn en 1-0 enduðu leikar.

„Við byrjum mjög vel og fengum mörg tækifæri til að klára þennan leik. Við hefðum getað sett 2-3 mörk í viðbót í fyrri hálfleik og ef það hefði heppnast þá hefði leikurinn spilast allt öðruvísi en af því við náðum því ekki þá föllum við svolítið til baka og missum taktinn. Við héldum áfram að fá færi í seinni þrátt fyrir að halda boltanum illa og við þurfum bara aðeins að bæta við til að nýta það en annars margt jákvætt í þessu.“

Keflvíkingar voru örlítið meira með boltann síðustu mínúturnar og segir Arnþór að það hafi verið smá stress í liðinu.

„Það er alltaf smá stressandi að vera 1-0 yfir og lítið eftir en mér leið leið svo sem ágætlega. Það reyndi á menn bæði í markinu og vörninni en maður hefur verið í þessari stöðu áður og þetta er alltaf stress en sætt að vinna leikinn svona.“

Arnþór skoraði stórglæsilegt mark og var nokkuð viss um að boltinn færi inn þegar hann lét vaða á markið.

„Já eiginlega, ég fékk smá efasemdir þegar hann var á leiðinni og stefndi í slánna en það var svakalega sætt að sjá hann inni því þetta kom beint af æfingasvæðinu. Ég og Venni (Sigurvin Ólafsson) erum búnir að æfa þetta svakalega mikið. Hann hefur verið að henda boltanum og ég tek hann á lofti þannig það var gaman að sjá þetta heppnast í leik.“

„Með þeim flottari. Þau eru ekki mörg en yfirleitt eru þau þokkalega flott og þetta er mjög ofarlega.“ sagði Arnþór er hann var spurður hvort þetta væri hans flottasta mark á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×