Opinber líkön sína að innlögnum á sjúkrahús gæti farið hratt fjölgandi og að á milli hundrað og tvö hundruð manns gætu dáið á degi hverjum í ágúst, þegar búist er við að þessi bylgja nái hámarki.
Yfirvöld Bretlands tilkynntu í gær að 34.471 hefði greinst smitaður í Englandi á undanförnum sólarhring, það er að segja 24 klukkustundum fyrir klukkan níu að morgni í gær.
Dr Chaand Nagpaul, stjórnarformaður læknasamtaka Bretlands (BMA) segir stóran hluta bresku þjóðarinnar ekki hafa verið fullbólusettan og það að fella niður sóttvarnaraðgerðir myndi gefa nýju kórónuveirunni færi á að herða tökin á Bretlandi og valda miklu álagi á heilbrigðiskerfið, samkvæmt frétt Guardian.
Hann sagði BMA hafa varað ítrekað við því álagi sem heilbrigðisstarfsmenn séu undir. Margir væru búnir á því og faraldurinn kæmi niður á annarri heilbrigðisstarfsemi.
„Forsætisráðherrann lagði ítrekað áherslu á það að fara hægt og varlega áfram, en í raunveruleikanum er ríkisstjórnin að kasta allri aðgát fyrir róða,“ sagði Nagpaul. Guardian hefur sambærilegar yfirlýsingar eftir forsvarsmönnum annarra samtaka heilbrigðisstarfsmanna.
Við tilkynningu sína í síðustu viku sagði Johnson að Englendingar þyrftu að læra að lifa með veirunni.
Sky News hefur eftir Stephen Barclay, fjármálaráðherra, að mögulega þurfi að beita sóttvarnaraðgerðum á nýjan leik seinna á þessu ári. Það færi eftir því hvernig faraldurinn myndi þróast á Englandi.
Það væri hins vegar mikilvægt að koma lífi Englendinga í fyrra horf og hagkerfinu í gang. Það væri mikilvægt og að gera það ekki gæti haft miklar afleiðingar.
„Þetta snýst um að finna rétt jafnvægi, svo fólk geti farið eftir eigin dómgreind, verið skynsamt og fylgt ráðleggingum;“ sagði Barclay.