Erlent

Einn látinn í ó­eirðunum á Kúbu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Mikil átök hafa geisað á Kúbu á síðustu dögum.
Mikil átök hafa geisað á Kúbu á síðustu dögum. Ramon Espinosa/AP

Fyrsta dauðsfallið í óeirðunum sem verið hafa á Kúbu síðan um helgina hefur nú verið staðfest.

Þrjátíu og sex ára gamall maður lét lífið í átökum við lögreglu í höfuðborginni Havana í gær. Að sögn innnaríkisráðuneytisins var maðurinn hluti af hóp sem réðst gegn ónefndri opinberri stofnun.

Ráðuneytið segir að nokkrir hafi verið handteknir í átökunum. Breska ríkisútvarpið hefur þó eftir vitnum á staðnum að öryggissveitir ríkisins hafi ráðist gegn fólkinu sem var að mótmæla á götum úti.

Mótmæli sem þessi, sem hófust á sunnudaginn, eru afar sjaldgæf í kommúnistaríkinu en þúsundir hafa streymt út á götur landsins og krafist betri kjara og mótmælt lausatökum stjórnvalda í kórónuveirufaraldrinum.

Slík fjöldamótmæli eru bönnuð á Kúbu og segir forseti landsins Miguel Díaz-Canel að mótmælendurnir séu andbyltingarmenn. Ríkisstjórnin kennir Bandaríkjamönnum og efnahagsþvingunum sem þeir beita Kúbu, um ástandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×