Veiðimaður sem var nýlega við veiðar í Soginu á svæðunum við Bíldsfell og Alvirðu tók fimm laxa á Bíldsfelli og aðra fimm á Alvirðu en það þykja fréttir því Alviðra hefur verið frekar léleg síðustu ár. Að auki setti þessi veiðimaður í vænar bleikjur en það er vel þekkt að júlí er ekki bara mánuður flottra laxa í Soginu, þetta er líka tíminn sem stóra bleikjan lætur vaða í flugur sem eru rétt frambornar. Það er vonandi að þetta sé merki um endurkomu Sogsins og það verður spennandi að sjá hvort nýliðinn straumur skili góðu sumri í ánni.
