Þetta sýna útreikningar Hjalta Sigurjónssonar, jarðeðlisfræðings hjá verkfræðistofunni Vatnaskil, sem byggja á gögnum úr 25 jarðskjálftamælum Veðurstofunnar. Samkvæmt greiningunni sprakk vígahnötturinn líklega klukkan 22:42 í 37 kílómetra hæð, um tvo kílómetra norðaustur af Hrafnabjörgum.
Brotin dreifst um stórt svæði
Þann 3. júlí greindi Veðurstofan frá því að loftsteinn eða vígahnöttur hafi mælst á jarðskjálftamælum á milli klukkan 22:44 og 22:48 á föstudagskvöldinu.
Skömmu fyrir það sást blossi á himni og er skýringin talin vera sú að loftsteinn hafi brunnið hratt upp í andrúmsloftinu. Við það hafi myndast þrýstibylgja auk áðurnefnds blossa. Var þá talið sennilegast að loftsteinninn hafi brunnið upp til agna í andrúmsloftinu áður en hann náði til jarðar.
Samkvæmt greiningu Hjalta er líklegt að einungis lítil brot hafi skilað sér til jarðar sem mjög erfitt gæti reynst að finna. Þetta kemur fram í færslu á Linkedin-síðu verkfræðistofunnar Vatnaskila.
Helgi sagði í samtali við RÚV að um væri að ræða nokkuð stóran loftstein sem væri álíka stór og lítið tveggja hæða hús með 50 fermetra gólffleti. Steinninn hafi verið á miklum hraða og brotin kastast talsvert áfram eftir að hann sprakk. Erfitt gæti því reynst að finna brotin þar sem þau séu lítil og dreifð um stórt svæði.
Meðfylgjandi myndskeið sýnir annan vígahnött brenna upp yfir Öræfajökli árið 2019. Það náðist með myndavél Hafness og Veðurstofunnar.
Fréttin hefur verið uppfærð og upplýsingar um myndskeiðið leiðréttar.