Fyrir hafði Ingólfur sent fimm samskonar bréf, þar sem hann krefur jafnmarga einstaklinga um samtals á annan tug milljóna í miskabætur vegna ummælanna sem lögmaður hans segir ærumeiðandi. Þá eru einstaklingarnir jafnframt krafðir um afsökunarbeiðni.
Fréttablaðið greinir frá því í gær að umrætt sjötta kröfubréf sé stílað á Silju Björk Björnsdóttur rithöfund og rekstrarstjóra vegna eftirfarandi ummæla hennar á Twitter frá 14. júlí.
„Ókei mér finnst geggjað að Halli bjóðist til að aðstoða þessa kvenskörunga fjárhagslega en....erum við samt ekki ÖLL sammála því að við erum ekki að fara að moka peningum í barnaníðing og nauðgara??“
Vísir hefur ekki náð tali af Silju Björk í morgun en hún segir við Fréttablaðið að hún hafi ekki séð bréfið. Þá telji hún tístið sett fram á hlutlausan hátt og bendir á að enginn sé þar nefndur á nafn, fyrir utan Harald Þorleifsson frumkvöðul sem boðist hefur til að greiða allan lögfræðikostnað og miskabætur sem fólk gæti hlotið af málaferlunum.
Þau fimm sem áður höfðu fengið kröfubréf eru Ólöf Tara Harðardóttir einkaþjálfari, Kristlín Dís Ingilínardóttir blaðamaður á Fréttablaðinu, Sindri Þór Sigríðarson Hilmarsson, Edda Falak, viðskiptafræðingur og aktívisti, og Erla Dóra Magnúsdóttir blaðamaður á DV.