Erlent

Segir sam­fé­lags­miðla eiga þátt í „far­aldri óbólu­settra“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AP/Susan Walsh)

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að eini faraldurinn sem nú geisar í Bandaríkjunum sé faraldur kórónuveirunnar meðal samlanda hans sem ekki vilji láta bólusetja sig fyrir veirunni. Hann segir athæfi samfélagsmiðlarisa á borð við Facebook spila þar stórt hlutverk.

„Eini faraldurinn sem við erum að glíma við er á meðal óbólusettra,“ sagði Biden við fréttamenn í gær. Á síðustu þremur vikum hefur fjöldi daglegra kórónuveirusmita í Bandaríkjunum þrefaldast, og er að miklu leyti bundinn við óbólusetta hópa víða um landið.

Yfir 90 milljónir Bandaríkjamanna sem þegar hefðu getað látið bólusetja sig hafa ekki þáð bólusetningu. Fjögur ríki þar sem bólusetningarhlutfall er lágt eiga um 40 prósent nýsmitaðra á síðustu viku. Af þeim er um helmingur frá Flórídaríki einu og sér.

Samkvæmt fréttastofu AP er, þrátt fyrir uppsveiflu í faraldrinum, lítil stemning í herbúðum forsetans fyrir því að ráðast aftur í víðtækar aðgerðir með boðum og bönnum til að hefta útbreiðsluna, þar sem 161 milljón Bandaríkjamanna hefur þegar verið bólusett.

Ungt fólk ólíklegra í bólusetningu

Bandarísk stjórnvöld hafa staðið í ströngu við að sannfæra ungt fólk um að þiggja bólusetningu. Ungt fólk er ólíklegra til að veikjast alvarlega af Covid-19, og tölfræði vestan hafs sýnir að ungt fólk er ólíklegra til þess að vilja bólusetningu.

Bandarísk stjórnvöld hafa einnig beint sjónum sínum að samfélagsmiðlum, einkum og sér í lagi Facebook, sem þau segja dreifa falsfréttum og áróðri gegn bólusetningum.

Biden var ómyrkur í máli um samfélagsmiðlarisana þegar hann ræddi við fréttamenn í gær.

„Þau eru að drepa fólk,“ sagði Biden, og tók þannig undir orð Viveks Murthy, landlæknis Bandaríkjanna, sem sagði í fyrradag að falsfréttir um bóluefni, sem dreifist líkt og eldur í sinu um Facebook, væru alvarleg heilbrigðisógn við bandarísku þjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×