Skoðun

Unga fólkið og frysti­húsin

Hrafndís Bára Einarsdóttir skrifar

Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hélt á dögunum upp á 10 ára afmæli sitt. Við tækifærið fóru valdir einstaklingar með nokkur orð um tímamótin og var eitt sérstaklega áberandi í máli þeirra allra. Öll áréttuðu þau að þó ástæða væri til að fagna hafi ferðalagið ekki alltaf verið auðvelt og þau vissu sem væri, að ekkert er í hendi.

Þarna er mikilvægt að stoppa aðeins við og rýna í þetta fyrirbæri. Ekki bara fyrirbærið Sköpunarmiðstöðina heldur fyrirbærin ungt fólk, sköpun, listir og ný tækifæri í jaðarbyggðum. Hvað rekur fólk til að leggja allt sitt í sölurnar fyrir gamalt hús og hugsjón, eyða ómældum tíma í að berjast fyrir tilveru þess og uppbyggingu? Er það hafið eða fjöllin?

Nei, sennilega er það fólkið á þessum stöðum. Fólkið og viljinn til að skapa sér gefandi og nærandi umhverfi þar sem það kýs að búa sér heimili. Unga fólkið sem hefur tekið hvert frystihúsið á fætur öðru, eða annað húsnæði sem áður hýsti gamla tíma, og gefið því nýtt líf og ný verkefni. Með hugviti sínu sem skapar ekki bara störf og dregur að fólk, heldur mótar nærsamfélagið og gefur af sér.

En hvers vegna þarf að berjast svona hatrammlega fyrir slíkri tilveru? Eru ekki allir sammála um að það nauðsynlegasta við uppbyggingu brothættra byggða og smærri samfélaga eru tækifæri fyrir ungt fólk og þjónusta við það eldra? Nú virðist vera að nánast hvert einasta pláss á Austurlandi státi af glæsilegri uppbyggingu hugmyndaríkra einstaklinga í gömlum húsum sem ganga í endurnýjun lífdaga. Slíkri uppbyggingu á ekki bara að fagna á tyllidögum og senda fallegar loforðskveðjur korter í kosningar. Slíkri uppbyggingu á að hampa alla daga, bæði í orði og á borði.

Draga þarf úr miðstýringu ríkis á sama tíma og stutt er við sjálfbærni sveitarfélaga. Þannig er smærri samfélögum gert kleift að móta sitt umhverfi sjálft. Gefum sköpunarkrafti hvers annars lausan tauminn og hefjum endurreisn á forsendum fólks og hugmynda þeirra.

Höfundur er hreinræktaður Hrafnkelsdælingur og skipar annað sæti Pírata í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×