Milwaukee Bucks höfðu betur gegn Phoenix Suns í sjötta leik úrslitaeinvígis liðanna um NBA-meistaratitilinn í gærkvöld, einvígi sem fyrrnefnda liðið vann 4-2 til að tryggja sér fyrsta titil sinn í 50 ár.
Fólk flykktist út á stræti Milwaukee til að fagna titlinum en rétt fyrir klukkan eitt í nótt á staðartíma hófst skothríð í miðjum fagnaðinum.
Samkvæmt fréttamiðlum í Milwaukee var meira en tólf skotum hleypt af og lagði fólk á flótta. Um stundarfjórðungi eftir að hvellirnir heyrðust höfðu þrír verið handteknir á staðnum.
Lögregla á svæðinu greindi frá því að þrjú hefðu særst í árásinni. 19 ára kona, 22 ára karl og 32 ára karl voru flutt á sjúkrahús vegna skotsára en ekkert þeirra var lífshættulega sært.
Málið er til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum í Milwaukee en frekari upplýsingar liggja ekki fyrir.
Vegfarandi tók upp myndskeið á meðan hann var á hlaupum sem má sjá í spilaranum að neðan. Þar má greinilega heyra skothvelli.