Erlent

Grábjörn sat um mann í viku í óbyggðum Alaska

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá kofann sem maðurinn hélt til í.
Hér má sjá kofann sem maðurinn hélt til í. Strandgæsla Bandaríkjanna

Áhöfn þyrlu Strandgæslu Bandaríkjanna rambaði fyrir tilviljun á mann á mjög afskekktum stað í Alaska sem var illa farinn eftir margra daga baráttu við grábjörn. Verið var að fljúga þyrlunni nærri Nome í Alaska þegar áhöfnin þurfti að beygja af leið vegna skýja.

Flugmenn þyrlunnar sáu þá að SOS hafði verið skrifað á þak kofa. Þegar þeir flugu nærri kofanum sáu þar mann standa á þakinu sem veifaði til þeirra með báðum höndum.

Hann bað þá um hjálp og sagði að grábjörn hefði ráðist á sig viku áður. Í tilkynningu frá Strandgæslunni segir að maðurinn hafi verið særður á fæti og mjög marinn á skrokki.

Strandgæslan segir manninn hafa verið um fimmtugt eða sextugt og hafði hann verið í kofanum frá 12. júlí. Kofinn mun hafa hýst gullleitarmenn á árum áður.

Maðurinn sagðist lítið hafa getað sofið eftir fyrstu árás bjarnarins vegna þess að björninn hefði snúið aftur á hverju kvöldi í heila viku, þrátt fyrir að maðurinn væri vopnaður skammbyssu. Hann mun þó hafa átt einungis tvö skot eftir þegar hjálpin barst.

Hann var fluttur til Nome til aðhlynningar.

Í frétt New York Times segir að hurð kofans hafi verið brotin en ekki er vitað hvort það gerðist á undanförnum dögum eða fyrir löngu síðan. Í samtali við miðilinn sagði annar flugmanna þyrlunnar að á einum tímapunkti hefði björninn dregið manninn niður að á. Maðurinn slapp þó ú klóm bjarnarins og varðist honum í viku.

Þá vitnar NYT í skýrslu frá 2019 þar sem fram kemur að 68 hafa slasast í 66 árásum Bjarna á tímabilinu 2000 til 2017. Tíu dóu í þessum árásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×