Fundurinn fer fram rafrænt en að honum loknum mun ríkisstjórn Íslands halda umræðum um tillögurnar áfram. Að ríkisstjórnarfundi loknum kemur í ljós hvort ríkisstjórnin verði að tillögum sóttvarnalæknis að hluta eða öllu.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalækir tilkynnti það á upplýsingafundi almannavarna í gær að hann myndi skila minnisblaði til ráðherra með tillögum að innanlandsaðgerðum fyrir lok dags. Hann vildi ekki fara nánar út í það í hverju þær tillögur felist en sagðist sækja í það sem reynst hafi vel fyrr í faraldrinum.
Í gær greindust 78 smitaðir af kórónuveirunni innanlands en fleiri hafa ekki greinst smitaðir á einum degi á þessu ári. 59 þeirra sem greindust smitaðir voru utan sóttkvíar. Þórólfur segir að faraldurinn sé í veldisvexti hér á landi og að grípa þurfti til aðgerða eins fljótt og hægt er.
Tveir liggja nú inni á Landspítala smitaðir af kórónuveirunni, annar á sjötugsaldri og fullbólusettur, og hinn óbólusettur undir sextugu. Landspítalinn var þá færður á svokallað hættustig í gær vegna faraldursins. Alls eru nú 301 einstaklingur í eftirliti á Covid-göngudeild, þar af 25 börn. Tíu sjúklingar eru í sérstöku eftirliti með tilliti til innlagnar.
Þá eru fimm starfsmenn spítalans í einangrun, 10 í sóttkví A og alls 225 í vinnusóttkví.