Innlent

Ör­tröð á Kefla­víkur­flug­velli í morgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Röðin á Keflavíkurflugvelli náði nokkuð langt út um klukkan sex í morgun.
Röðin á Keflavíkurflugvelli náði nokkuð langt út um klukkan sex í morgun. Linda Stefánsdóttir

Fullt var út úr dyrum og gott betur en það á Keflavíkurflugvelli í morgun. Sextán flugvélar hófu sig á loft fyrir klukkan níu í morgun og 34 vélar til viðbótar fljúga utan síðar í dag.

Flugvélarnar sextán í morgunsárið voru vélar Icelandair á leiðinni til Evrópu. Þar var meðal annars um að ræða tvær flugvélar á leið til Kaupmannahafnar, ein til Stokkhólms auk reglubundins flugs til Tenerife þar sem margur Íslendingurinn sólar sig þessa stundina. Hópur sólbrúnna ferðalanga er svo væntanlegur til landsins með sömu vél í kvöld.

Þá eru tvær flugvélar Play á leið í sólina fyrir hádegi í dag, önnur til Tenerife en hin til Alicante.

Fjöldi Ameríkufluga eru eftir hádegið og fram á kvöld en sem kunnugt er geta aðeins bandarískir ríkisborgarar flogið til og frá Bandaríkjunum sem stendur. 

Á þriðjudaginn taka gildi nýjar reglur á landamærum við komuna til Íslands. Þá þurfa allir bólusettir einstaklingar eða þeir sem eru með staðfesta fyrri sýkingu sem koma til Íslands að framvísa ekki eldra en 72 klukkustunda gömlu neikvæðu Covid-prófi, PCR eða antigen (hraðprófi), við byrðingu erlendis

Óbólusettir einstaklingar þurfa áfram að framvísa PCR-vottorðum sem eru ekki eldri en 72 klst. gömul, auk þess þurfa þeir áfram að fara í tvær PCR-skimanir með fimm daga sóttkví á milli skimana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×