Vegagerðin skrifaði undir samning við landeigendur í gær en eigendur Grafar voru þeir einu sem ósamið var við. Jörðin Gröf er í Teigsskóg, stórum birkiskóg, hvar leggja á veg í gegn. Landeigendur hafa barist af krafti gegn lagningu vegarins árum saman vegna áhrifa á umhverfið.
Á vef Vegagerðarinnar segir að landeigendur hafi, í kjölfar úrskurðar um framkvæmdaleyfi, unnið að því með Vegagerðinni að laga framkvæmdina sem best að landi innan landamerkja Grafar.
Áhrif á umhverfið verði lágmörkuð eins og kostur er.

„Við höfum ávallt haft trú á því að þetta myndi ganga eftir, að fólk myndi ná saman en auðvitað hefur þetta þá þýðingu að þessi framkvæmd getur orðið að veruleika. Það hefur verið lagt í þessa framkvæmd og farið af stað með hana í þeirri trú að þetta geti orðið. Framkvæmdin er komin vel á veg. Ég held að fólk hafi alltaf haft trú á því að þetta myndi ganga eftir á einn eða annan hátt,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitastjóri í Reykhólahreppi.
Framkvæmdir við vegalagningu hófust sumarið 2020 með endurbyggingu Vestfjarðavegar frá Skálanesi í Gufudal sem gert er ráð fyrir að ljúki nú á næstu vikum. Verður þá rúmlega 5 kílómetra kafli Vestfjarðavegar lagður bundnu slitlagi. Í vor hófust svo framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar frá Kinnarstöðum að Þórisstöðum og er bygging 260 metra langrar brúar að hefjast. Gert er ráð fyrir verklokum árið 2024.

„Fyrir okkur í Reykhólahreppi býr fólk í Gufudalssveit og margt fólk sem sækir í Múlasveitina gömlu. Það eru flutningar með börn dagsdaglega alla daga ársins og fólk er að vinna og þetta fólk þarf ekki að fara yfir þessa hálsa og getur komið á öruggum vegum í vinnuna sína og skólann á hverjum degi. Þetta er þvílík breyting, alveg ótrúleg breyting,“ segir Ingibjörg.
Nú standi á ríkisstjórninni að halda fjármagninu að verkefninu svo framkvæmdin geti öll orðið að veruleika. Vegagerð sé vel á veg hafin en sjá þurfi til þess að verkefnið klárist.

„Þetta mun breyta öllu fyrir fólk á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég held að þessi aðgerð muni skila mestu til þeirra. Koma þessum vegum í nútímalegt lag. Að fólk geti ekið um á láglendisvegum að mestu. Það er náttúrulega Kletthálsinn eftir og fleiri en þessir vegir hafa náttúrulega ekki verið bjóðandi. Þeir eru barn síns tíma og löngu löngu komið að því að koma þessu í lag. Öll sú uppbygging sem á sér stað á sunnanverðum Vestfjörðum núna bíður eftir að framkvæmdin verði. Þetta hefur allt að segja með það.“