Erlent

Flæðir inn á sjúkra­hús og lestar­kerfi í Lundúnum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Úrkoman náði 42 millimetrum um tíma í Lundúnum í gær.
Úrkoman náði 42 millimetrum um tíma í Lundúnum í gær. Getty/Victoria Jones

Miklar rigningar í suðurhluta Englands og í Wales hafa orðið þess valdandi að flóðaviðvaranir hafa verið gefnar út á fimm svæðum, þar á meðal í höfuðborginni Lundúnum.

Vatnið hefur lokað vegum og flætt niður í neðanjarðarlestakerfið með tilheyrandi truflunum. Þá hafa tveir spítalar í borginni þurft að vísa fólki frá eftir að vatn flæddi inn í þá í nótt. Spítalarnir hafa beðið fólk um að leita ekki á bráðamóttöku þeirra vegna flóðanna. Þá hefur sjúkrabílum verið beint annað þar sem ekki er hægt að taka á móti þeim.

Einnig hafa björgunarsveitir þurft að aðstoða fólk sem býr á jarðhæðum eða kjöllurum þegar vatn hefur tekið að flæða inn á heimili þeirra. Slökkviliðið í Lundúnum svaraði um 300 flóðatengdum útköllum á nokkurra klukkustunda tímabili í morgun.

Flóðaviðvaranir hafa verið gefnar út á fimm svæðum í Englandi og Wales.Getty/David Mbiyu/

Í gær rigndi rúmum 48 millimetrum á einum klukkutíma í Kent og í London náði úrkoman 42 millimetrum um tíma í Lundúnum. Veðurfræðingar segja rigningarnar orsakast af því að heita loftið sem myndaðist í hitabylgjunni sem gekk yfir Evrópu á dögunum er nú að blandast saman við kaldara loft í andrúmsloftinu. Smá uppstytta verður á Englandi í dag en í vikunni er síðan útlit fyrir enn meiri rigningar á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×