Hún sagði fjölgun smitaðra vera áhyggjuefni og útlit sé fyrir að smitaðir sýni lítil eða jafnvel engin einkenni en séu samt smitandi.
„Þá höfum við náttúrulega áhyggjur af því að það séu smitaðir einstaklingar á ferðinni og séu ekki að fara í sýnatöku, hreinlega þar sem þau vita ekki af því að þau þurfa á því að halda,“ sagði Guðrún.
Ofan á það virðist sem Delta-afbrigðið smitist auðveldar manna á milli og hver einstaklingur smiti fleiri. Erfiðara sé að ná utan um ástandið af þessum sökum.
Varðandi bólusetningar sagði Guðrún að til greina komi að kalla heilbrigðisstarfsmenn úr fríi og hefja bólusetningar aftur. Þá mögulega til dæmis að gefa fólki sem fékk bara eina sprautu af bóluefni aðra skammta en Guðrún sagði enga ákvörðun hafa verið tekna.
Sömuleiðis hafi verið rætt að gefa ákveðnum hópum sem eru í aukinni áhættu þriðja skammt bóluefnis, hafi viðkomandi fengið tvo skammta áður.