Erlent

Einn lést í sprengingu í Þýska­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mikinn reyk lagði frá iðnaðarsvæðinu í dag eftir að sprengingin varð.
Mikinn reyk lagði frá iðnaðarsvæðinu í dag eftir að sprengingin varð. EPA-EFE/SASCHA STEINBACH

Minnst einn lést í sprengingu á iðnaðarasvæði fyrir efnavinnslufyrirtæki í Þýskalandi í morgun og tugir slösuðust. Fjögurra er enn saknað. Mikill eldur kviknaði við sprenginguna og mátti sjá mikinn reyk yfir borginni Leverkusen í morgun.

Slökkvilið var að störfum í þrjár klukkustundir áður en tókst að ráða niðurlögum eldsins. Sprengingin varð klukkan 9:40 að staðartíma, eða klukkan 7:30 að íslenskum tíma. Efnavinnslufyrirtækin Bayer og Lanxess halda úti framleiðslu á svæðinu. Fréttastofa Reuters greinir frá. 

Fimm af þeim 31 sem slasaðist í sprengingunni eru á gjörgæslu en þeirra fjögurra sem er saknað er enn leitað.

Öllum vegum í nálægð við iðnaðarsvæðið var lokað stóran hluta dagsins og var íbúum í nágrenninu gert að halda sig innandyra og loka öllum gluggum og hurðum ef reykurinn bæri með sér eitruð efni. Þá voru íbúar hvattir til að slökkva á loftræstikerfum heima hjá sér til öryggis.

Enn er ekki ljóst hver var kveikjan að sprengingunni sem leiddi til þess að eldur barst í eiturefnagáma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×