Skoðun

Fimm for­gangs­mál í far­aldrinum

Logi Einarsson skrifar

Sú fjölgun smita sem orðið hefur síðustu daga er högg fyrir þjóðina sem hefur loksins notið ferðalaga og langþráðra samvista við vini og fjölskyldu í sumar og hlakkað til betra lífs eftir að hafa lagt mikið á sig og sýnt gríðarlegan samtakamátt og styrk.

Vissulega er hægt að gagnrýna ýmsar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, svo sem að fara of geyst í afléttingar á landamærum og að hætta að skima bólusetta ferðamenn. Aðalatriðið nú er samt að taka engu sem gefnu í þessari erfiðu viðureign, og reyna að læra af mistökum stjórnvalda. Samfylkingin hefur staðið við bakið á sóttvarnaryfirvöldum og þríeykinu í gegnum faraldurinn og það munum við gera áfram. Við viljum einnig sýna framlínufólki aukinn stuðning.

Veruleiki okkar næstu misserin mun mótast af umgengni við veiruna. Þá verðum við að sameinast um þá þætti samfélagsins sem eru okkur dýrmætastir og verja þá af alefli. Við megum ekki hætta að berjast fyrir farsælli framtíð til langs tíma í þessu erfiða stundarstríði.

Næstu tvær vikur munu leiða í ljós hversu vel núgildandi takmarkanir duga til að hemja útbreiðslu smita og hversu margir koma til með að veikjast alvarlega þrátt fyrir bólusetningar. Næstu ákvarðanir hljóta að byggja á yfirveguðu og raunsæju mati á stöðunni.

Við getum ekki látið framlínustarfsfólkið eitt um að stytta sumarleyfin sín til að takast á við afleiðingar aukinna smita. Í baráttunni við þetta nýja afbrigði þarf skýr markmið og aðgerðir. Því þótt óvissa ríki um veiruna er hægt að ráðast strax í ýmis verkefni.

Fimm aðgerðir

Í fyrsta lagi verðum við að styrkja heilbrigðiskerfið til að það geti tekist á við óvænt áföll eins og það sem við upplifum nú. Það verður ekki lengur beðið með að bregðast við ítrekuðu ákalli heilbrigðisstarfsfólks um það. Það er líka skýrt að ef sá niðurskurður sem ríkisstjórnin boðar í fjármálaáætlun sinni til næstu fimm ára þótti óraunsær þegar stjórnarmeirihlutinn samþykkti hana í vor, þá er hann augljóst glapræði nú. Þvert á móti þarf að styrkja mun betur ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar. Þá er nauðsynlegt að tryggja starfsfólki umbun fyrir þær fórnir sem það færir í faraldrinum, t.d. með sérstökum álagsgreiðslum til þeirra sem nú eru kölluð heim úr sumarfríi til að tryggja öryggi okkar.

Í öðru lagi verðum við að gera allt sem hægt er til að tryggja að skólastarf geti hafist með sem minnstu raski nú í ágúst. Mannleg samskipti og félagsleg færni eru grundvallaratriði í þroska barna og ungmenna. Menntun verður að vera í forgangi auk þess sem áframhaldandi takmarkanir á félagslífi í landinu geta haft slæmar afleiðingar fyrir félagsþroska og andlega heilsu ungmenna. Hagsmunir barna og ungmenna verða að vega mjög þungt við val á aðgerðum í baráttunni við veiruna. Liður í því getur verið að setja kennara og aðra þá sem sinna kennslu, tómstunda- eða félagsstarfi barna, í forgang þegar kemur að því að velja hópa í viðbótarskammt af bóluefni í ágúst.

Í þriðja lagi verður að tryggja lífsafkomu fólks sem verður fyrir áfalli vegna veirunnar. Atvinnuleysi er hér enn með því hæsta í Evrópu, og ef við og löndin í kringum okkur horfum fram á áframhaldandi útbreiðslu veirunnar er ljóst að grípa þarf til frekari aðgerða til hjálpar atvinnuleitendum. Það þarf að lengja tímabil atvinnuleysisbóta og hækka lágmarksgreiðslur, í hið minnsta tímabundið. Samfylkingin hefur einnig lagt til að hækka persónuafslátt til þeirra sem hefja störf að nýju eftir atvinnuleysi.

Í fjórða lagi verður að vakta vel starfsemi fjölbreyttra fyrirtækja um allt land, og grípa til stuðningsaðgerða fyrir þau sem þess þurfa, sér í lagi lítil fyrirtæki og einyrkja. Markmiðið er betra atvinnulíf eftir faraldurinn. Þótt ferðaþjónustan muni áfram leika lykilhlutverk í íslensku hagkerfi gerum við okkur flest grein fyrir fyrir nauðsyn þess að fjölga stoðum undir atvinnulífið, m.a. til að dreifa áhættunni þegar áföll ríða yfir. Nærtækast og skynsamlegast er að virkja hugvitið og örva þekkingariðnað og nýsköpun.

Í fimmta lagi er þessi mikla útbreiðsla Delta-afbrigðisins okkur mikilvæg áminning um að glíman við veiruna verður ekki unnin fyrr en jarðarbúar hafa upp til hópa verið bólusettir og við höfum náð tökum á faraldrinum um alla veröld. Stjórnmálaflokkarnir hafa gjörólíka sýn á þátttöku í alþjóðlegu samstarfi en jafnaðarmenn hafa alltaf lagt ríka áherslu á það. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því af öllu afli á alþjóðavettvangi að fátækari ríkjum heims verði tryggt bóluefni hratt og örugglega.

Betri greiningu, meiri upplýsingar, skýrari aðgerðir

Við í Samfylkingunni teljum nauðsynlegt að þjóðin fái sem skýrasta mynd af því hvernig bregðast skuli við stöðunni. Þess vegna mun þingmaður Samfylkingarinnar og formaður Velferðarnefndar Alþingis óska eftir því að nefndin komi saman á fund strax eftir helgi og kalla eftir upplýsingum frá færustu sérfræðingum og framlínufólki. Við teljum auk þess að aðrar nefndir þingsins sem fjalla um efnahags- og atvinnumál þurfi að koma saman til að ræða viðbrögð og aðgerðir.

Fjölgun smita er bakslag. Þá er freistandi að vilja bara hætta baráttunni eða gefast sundurlyndisfjandanum á vald. En þótt við höfum svo sannarlega orðið fyrir vonbrigðum megum við ekki láta hugfallast. Næg eru verkefnin. Við erum rík þjóð og vel menntuð og kunnum vel að takast saman og skipulega á við krefjandi verkefni eins og dæmin sanna. Við erum þrátt fyrir allt í mun ákjósanlegri stöðu en mörg önnur lönd. Við skulum því berjast áfram við faraldurinn af krafti en hafa kjark til að miða aðgerðirnar við það sem er okkur þrátt fyrir allt dýrmætast.

Það mun á endanum skila okkur farsælli framtíð.

Höfundur er þingmaður og formaður Samfylkingarinnar. 




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×