Erlent

Staðan í Banda­­­ríkjunum varpar nýju ljósi á delta-af­brigðið

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Aðeins þrjú prósent þeirra sem leggjast inn á spítala með Covid-19 í Bandaríkjunum þessa daga eru bólusettir einstaklingar.
Aðeins þrjú prósent þeirra sem leggjast inn á spítala með Covid-19 í Bandaríkjunum þessa daga eru bólusettir einstaklingar. getty/Jhon Moore

Banda­ríkja­menn standa nú frammi fyrir svipaðri stöðu og við Ís­lendingar; smituðum einstaklingum fjölgar ört og bíða menn í of­væni eftir að sjá hversu alvarlegum veikindum delta-afbrigðið getur valdið hjá þeim sem eru bólusettir. Það ætti að koma í ljós á næstu dögum eða viku. Sérstaða Bandaríkjanna sýnir þó ágætlega hversu virk bóluefnin eru gegn afbrigðinu. 

Á Íslandi liggja nú átta sjúklingar inni á Landspítalanum og einn á gjörgæslu. Sá sem er á gjörgæslu er sá eini sem er óbólusettur, hinir hafa allir fengið bóluefni við veirunni.

Sjá einnig: Óbólu­settur Ís­lendingur á gjör­gæslu­deild.

Flestir eru bólusettir á Íslandi, rúmlega 85 prósent 16 ára og eldri eru fullbólusett og fimm prósent til viðbótar eru hálfbólusett. Því þarf kannski ekki að koma á óvart að svo hátt hlutfall þeirra sem leggjast inn á spítala hér séu bólusettir einstaklingar. 

Ljóst er að staðan væri hér mun verri ef fleiri væru óbólusettir eins og í Bandaríkjunum.

Þar eru 60 prósent 18 ára og eldri fullbólusett og níu prósent til viðbótar komin með fyrsta skammt bóluefnis.

Í Bandaríkjunum er hlutfall bólusettra sem leggjast inn á spítala mun minna en á Íslandi og ljóst að þeir sem eru óbólusettir eru í miklu meiri hættu á að þurfa spítalainnlögn vegna Covid-19 heldur en bólusettir. Samkvæmt tölum frá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) eru ekki nema þrír af hverjum hundrað sem leggjast inn á spítala í Bandaríkjunum bólu­settir.

Það skýrist einnig af því að faraldurinn er í miklu meiri vexti á þeim svæðum þar sem lágt hlutfall íbúa er bólusett og því er meirihluti þeirra sem smitast óbólusettir einstaklingar.

Þúsund sinnum meira veirumagn

Í landinu hefur grímu­skyldu víða verið komið aftur á, líkt og hér. Og í gær breytti CDC til­mælum sínum um grímu­notkun fyrir bólu­setta ein­stak­linga, ekki nema viku eftir að stofnunin hafði gefið það út að engar slíkar breytingar yrðu gerðar nema að grund­vallar­breytingar yrðu á þeim upp­lýsingum sem lægju fyrir um delta-af­brigðið.

Þá var talið að bólusettir gætu ekki borið veiruna með sér og smitað aðra en öll gögn benda nú til hins gagnstæða.

Nýjar rann­sóknir vestan­hafs sýna að bólu­settir ein­staklingar geti þvert á móti borið mjög mikið magn af delta-af­brigðinu með sér í bæði nefi og hálsi þó óvíst sé nákvæmlega hversu smitandi þeir eru.

Sem fyrr segir virðist þó greinilegt að veiran eigi greiðari leið milli óbólusettra einstaklinga en bólusettra ef litið er til þeirra svæða í Bandaríkjunum þar sem faraldurinn er í hve mestum vexti. 

Sjá einnig: Yfirlæknir á von á miklu lægra hlutfalli alvarlegra veikra.

Talið er að af­brigðið sé um tvisvar sinnum meira smitandi en hin af­brigði veirunnar og nýjar rann­sóknir gefa það þá til kynna að fólk sem smitast af delta-af­brigðinu beri með sér um þúsund sinnum meira veiru­magn en þekktist í fyrri bylgjum far­aldursins. Þeir virðast einnig eiga það til að bera veiruna lengur í sér en fólk sem er smitað af öðrum af­brigðum.

Áhyggjur af næsta afbrigði

„Stóra á­hyggju­efnið núna er að næsta af­brigði veirunnar sem kann að spretta upp - og gæti myndast eftir að­eins ör­fáar stökk­breytingar - geti komið sér undan þeirri vörn sem bólu­efni okkar veita í dag,” er haft eftir Rochelle Wa­len­sky, yfir­manni CDC í frétt The New York Times um á­hrif delta-af­brigðisins á Banda­ríkin.

Smituðum hefur farið ört fjölgandi í Banda­ríkjunum á síðustu dögum og smitast nú að meðal­tali fjórum sinnum fleiri á dag í landinu en fyrir mánuði síðan.

Spítala­inn­lögnum fer einnig fjölgandi og látast nú 275 af völdum veirunnar að meðal­tali á dag.

Rochelle Wa­len­sky, yfir­maður CDC.getty/Jim Lo Scalzo-Pool

Grímur aðstoði bólu­efnið

CDC gaf út breytt til­mæli sín um grímu­notkun í gær. Nú er fólki á þeim svæðum í Banda­ríkjunum þar sem far­aldurinn er á upp­leið ráð­lagt að bera grímur innandyra á al­mennings­svæðum og í öllu skóla­starfi.

Scott Dryden-Peter­son, smit­sjúk­dóma­læknir hjá Birming­ham & Wo­mens hos­pil­tal, spítala í Boston, er á­nægður með nýju til­mælin um grímunotkun fyrir bólusetta.

Hann mælir með að allir þeir sem hafa fengið bólu­setningu virði þetta og beri grímur meðal al­mennings, sér­stak­lega þeir sem eru með veik­burða ó­næmis­kerfi eða til­heyra á­hættu­hópum:

„Grímur geta með góðum árangri minnkað það magn veirunnar sem við öndum að okkur og komið í veg fyrir að við verðum veik. Þannig virka grímur sem hjálpar­tæki við bólu­efnið,” er haft eftir Dryden-Peter­son í frétt The New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×