Skoðun

Jafnaðarmenn og verkalýðshreyfingin

Kjartan Valgarðsson skrifar

Ég heyrði af einstæðri, fjögurra barna móður um daginn sem vinnur venjulegan vinnudag og síðan aukavinnu um kvöld og helgar til að ná endum saman. Hún fær litlar sem engar barnabætur en myndi fá u.þ.b. andvirði launa aukavinnunnar ef tekjuskerðingar barnabótakerfisins yrðu afnumdar. Og hefði þá meiri tíma með börnum sínum. Fyrir þessa konu berst Samfylkingin. Fyrir þessa konu berst verkalýðshreyfingin.

Samfylkingin er stjórnmálasamtök verkalýðshreyfingarinnar. Jafnaðarhreyfingin á Íslandi er runnin af sömu rót og hreyfing launafólks, á sér sameiginlega sögu, sama upphaf og sömu hugsjónir.

Samfylkingin leggur m.a. áherslu á kjör fjölskyldna í komandi kosningabaráttu. Stefna okkar jafnaðarmanna er samhljóða stefnu ASÍ, við berjumst fyrir að fjölskyldur beri meir út býtum, að skattkerfið taki tillit til mismunandi framfærslubyrði með afnámi tekjuskerðinga í barnabótakerfinu og að þær verði greiddar út mánaðarlega.

Það togast á hagsmunir í samfélaginu, stjórnmálabaráttan snýst að mestu um hvernig við eigum að skipta arðinum af samfélagsstarfseminni. Í þessu reiptogi togast á þeir sem eiga og þeir sem vinna. Þessi veruleiki er fyrir augunum á okkur á hverjum degi, í fyrirsögnum fjölmiðla, í samtölum vinnufélaga, í skrifum stjórnmálafólks og forystufólks stéttarfélaga. Íslenskir jafnaðarmenn berjast með launþegasamtökunum, toga með þeim í sömu átt og vinna með þeim að því að auka jöfnuð. Við stöndum á bremsunum með verkalýðshreyfingunni til að koma í veg fyrir einkavæðingu í heilbrigðis-, skóla- og velferðarkerfinu sem mun auka misskiptingu og ójöfnuð eins og veruleikinn í Svíþjóð er nú talandi dæmi um og sannarlega víti til að varast.

Velferðar-, heilbrigðis- og skólakerfi okkar eru til að

auka lífsgæði fólks og fjölskyldna, en ekki til að greiða eigendum fyrirtækja arð

bæta almenna menntun og færni, en ekki til að breyta nemendum í viðskiptavini

tryggja almenna heilbrigði allra án tillits til tekna, en ekki til að tryggja ofurgróða örfárra sérfræðilækna eða eigenda fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.

Erindi jafnaðarmanna og verkslýðshreyfingarinnar er skýrt: við vinnum saman að hagsmunum venjulegs, vinnandi fólks, innan og utan fjölskyldna, sambúðarfólks og einstæðra foreldra, fólks í vinnu og þeirra sem leita að vinnu. Þess vegna skipta kosningarnar í september svo miklu máli.

Höfundur er formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×